Vill þjóðarsátt um gjaldmiðil

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir kallar eftir þjóðarsátt allra flokka um nýjan gjaldmiðil. Hún segir að stærsta málið sem þjóðin þyrfti að glíma við væri gjaldmiðillinn. „Ég hygg að þeir sem telja að það sé allt í lagi með krónuna séu í afneitun,“ sagði Jóhanna.

Þetta sagði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi sagði hún að mikilvægt væri að skipta um gjaldmiðil, óbreytt ástand í gjaldmiðlamálum kæmi ekki til greina.

Formaður og varaformaður Framsóknarflokksins tóku þessi ummæli upp við forsætisráðherra og efnahagsráðherra á þingfundi í morgun og sögðu ummælin varhugaverð.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, bað þar forsætisráðherra um að gera grein fyrir þeim orðum sem hún hefur látið fall um „gjaldmiðil þjóðarinnar á mjög viðkvæmum tímum“. 

Á hvaða ferðalagi er Framsókn?

„Þessi ummæli háttvirts forsætisráðherra munu líklega hafa það í för með sér að það verður erfiðara en ella að aflétta þeim höftum sem þjóðin er bundin í um þessar mundir,“ sagði Birkir Jón. „Eru þetta ekki tímar þar sem forsætisráðherra þjóðarinnar ætti að tala kjark í þjóðina og byggja á trausti á gjaldmiðlinum okkar sem er íslenska krónan?“ spurði hann.

Jóhanna sagðist telja að mjög margir væru sér sammála um að stærsta málið sem þjóðin þyrfti að glíma við væri gjaldmiðillinn.  „Ég hygg að þeir sem telja að það sé allt í lagi með krónuna séu í afneitun,“ sagði Jóhanna.

„Ég spyr: Er Framsóknarflokkurinn í afneitun, eða á hvaða ferðalagi er Framsóknarflokkurinn í þessu efni? Hann hefur talað fyrir Kanadadollara. Er hann þá ekki að tala um að leggja niður krónuna, eða hvað?“

Samstöðu er þörf

Forsætisráðherra þvertók fyrir það að hafa nokkurn tímann sagt að krónan væri ónýt. „Heldur benti ég á það augljósa að það þyrfti að breyta krónunni og því ástandi sem hún hefur skapað. Það er ekki hægt að láta eins og ekkert sé.“

Hún sagði að ná þyrfti samstöðu um að „setjast yfir það hvaða leið við eigum að fara í gjaldeyrismálum þjóðarinnar.“

„Við þurfum að breyta um gjaldmiðil,“ sagði Jóhanna og sagði að Seðlabankinn ynni að gerð skýrslu þar sem skoðaðar væru þær leiðir sem væru færar í þessu sambandi.

Hún sagði brýnt að þingmenn hættu afneitun í þessum efnum og horfðust í augu við staðreyndir og raunveruleikann. „Þetta er stærsta mál íslensku þjóðarinnar að menn setjist yfir það, hætti öllu karpi og skoði þann framtíðargjaldmiðil sem best hentar fyrir þjóðina. Það er sú leið sem við þurfum að fara og það er stærsta mál íslensku þjóðarinnar.“

Krónan verður næstu árin

Birkir Jón kom þá aftur í ræðustól og sagði þetta vera þriðja daginn í röð sem þingmenn Samfylkingarinnar færu með helber ósannindi. Framsóknarmenn hefðu haldið uppi umræðu um gjaldmiðilsmál á undanförnum árum. Ekki væri þó þar með sagt að það væri stefna flokksins að skipta krónunni út, heldur bæri honum skylda til að efna til umræðu um þessi mál. „En hæstvirtur forsætisráðherra virðist því miður aðeins geta horft í eina átt þegar kemur að því.“

Hann sagði að ljóst væri að krónan yrði gjaldmiðill landsins næstu árin og á meðan svo væri bæri ráðamönnum að tala varlega um hana. Ekki þýddi fyrir forsætisráðherra að gaspra um hann með neikvæðum hætti. Það gæti leitt af sér að kaupmáttur heimilanna rýrnaði og skuldirnar hækkuðu.

Við þurfum þjóðarsátt

Í svari Jóhönnu kom fram að ljóst væri að Framsóknarflokkurinn teldi að óbreytt ástand gengi ekki, annars hefði hann varla efnt til ráðstefnu um gjaldeyrismál. 

„Ég tel og býð það hér með fram, að allir flokkar á þingi reyni að setjast yfir þetta mál í ró og með því hugarfari að gera það sem skynsamlegt er fyrir þessa þjóð. Við þurfum þjóðarsátt um nýjan gjaldmiðil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka