Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur fellt úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. október 2008 um breytt deiliskipulag Teigahverfis, er varðar tiltekna lóð við Kirkjuteig. Taldi nefndin að ákvörðun ráðsins hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli.
Deilt var um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Teigahverfis, sem er frá árinu 2002, en umdeild breyting tekur einungis til lóðarinnar nr. 21 við Kirkjuteig.
Borgaryfirvöld kusu að fara með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða og var hún því grenndarkynnt með vísan til undantekningarákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þau lög eiga við í málinu.
Við mat á því hvort um óverulega breytingu sé að ræða á deiliskipulagi leit nefndin m.a. til umfangs hennar, í þessu tilviki umfangs þeirrar byggingar sem breytingin lýtur að miðað við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði, hvernig sú bygging falli að byggðamynstri og hver grenndaráhrif hennar séu.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að deiliskipulag sem tekið hefur gildi sé bindandi fyrir stjórnvöld og borgara. „Í skipulagðri byggð verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að nauðsyn beri til. Verður að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, enda getur það raskað hagsmunum annarra lóðarhafa og dregið úr þeirri festu er deiliskipulagi er ætlað að skapa. Eiga þessi sjónarmið við þótt breyting á skipulagi hafi ekki veruleg grenndaráhrif.“
Nefndin leit til þess að með ákvörðun skipulagsráðs hafi notkun umræddrar lóðar verið breytt og hámarksnýtingarhlutfall aukið talsvert. Var ekki fallist á það með Reykjavíkurborg að aðeins hafi verið um óverulega breytingu að ræða. „Er hvort tveggja, stærð húss og nýtingarhlutfall á lóðinni samkvæmt hinni kærðu tillögu, verulega meira en það sem almennt gerist í hverfinu. Breytingin skerðir jafnframt grenndarhagsmuni kæranda þar sem einhver aukin skuggamyndun verður samfara stækkun hússins er stendur sunnan megin við lóð kæranda.“
Sökum þess taldi úrskurðarnefndin að undirbúningur ákvörðunarinnar hafi ekki verið reistur á réttum lagagrundvelli og var hún því felld úr gildi.