Engin hlutlæg ábyrgðarregla

Maðurinn slasaðist við vinnu við löndun úr frystitogara.
Maðurinn slasaðist við vinnu við löndun úr frystitogara. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Löndun ehf. og Tryggingarmiðstöðinni hf. hefur verið gert að greiða starfsmanni skaðabætur, sem kól á fingrum og tám þegar hann starfaði á vegum fyrrnefnda fyrirtækisins við löndun úr frystitogurum. Þetta var staðfest í dómi Hæstaréttar í gær. Í málinu reyndi í fyrsta skipti á ákvæði laga nr. 124/2009, sem fólu í sér breytingar á skaðabótalögum nr. 50/1993.

Með gildistöku laga nr. 124/2009 kom ný grein, 23. gr. a, inn í skaðabótalög. Ákvæðið er svohljóðandi:

23. gr. a. Meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysum.   

  • Nú verður starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu og skerðist þá ekki réttur hans til skaðabóta vegna meðábyrgðar nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð.

Í dómsniðurstöðu Hæstaréttar kom fram að maðurinn hefði ráðið sig tímabundið til vinnu og 25-30 stiga frost hefði verið í lest þess togara, sem hann starfaði í þennan dag. Jafnframt sagði að fyrir lægi að manninum hefði ekki verið gert sérstaklega grein fyrir þeirri hættu sem fylgdi því að vinna í slíkum kulda. Hann hefði ekki heldur fengið leiðbeiningar um hvernig ætti að bera sig að við vinnu í slíkum aðstæðum. Maðurinn fékk prjónavettlinga til að nota við starfið, sem hófst klukkan sjö að morgni og lauk klukkan 13:40, þegar maðurinn lét sig hverfa án þess að láta nokkurn vita og leitaði á Slysa- og bráðadeild Landspítala.

Athygli vekur að af hálfu áfrýjanda - þ.e. mannsins sem kól - var því haldið fram að með áðurnefndri 23. gr. a. skaðabótalaga hefði í raun verið lögleidd svonefnd hlutlæg ábyrgðarregla vinnuveitenda á líkamstjóni sem starfsmenn hljóta í starfi sínu. Hæstiréttur féllst ekki á þessa röksemd og í dómsniðurstöðu sagði að hvorki yrði ráðið af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum - þ.e. athugasemdum í greinargerð með lagafrumvarpinu - að slík regla hefði verið lögfest.

Manninum voru hins vegar dæmdar skaðabætur í ljósi þess að skort hefði á lögboðnar leiðbeiningar til mannsins og að verkstjórn hefði verið áfátt af hálfu Löndunar ehf. Jafnframt var ekki talið að maðurinn ætti að bera hluta tjóns síns sjálfur á grundvelli stórkostlegs gáleysis eða ásetnings.

Hlutlægar ábyrgðarreglur fela í sér skaðabótaábyrgð, sem stofnast vegna tjóns, þótt sá sem skaðabótaábyrgð ber samkvæmt slíkri reglu hafi ekki sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.

Slíkar reglur eru undantekningar frá meginreglu skaðabótaréttar - sakarreglunni svonefndu - um að sá sem valdi tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti (þ.e. af ásetningi eða gáleysi) beri skaðabótaábyrgð.

Þekktasta dæmið um slíka hlutlæga ábyrgðarreglu er líklega hlutlæg ábyrgðarregla umferðarlaga - 1.mgr. 88.gr. - sem kveður á um að skráður eða skráningarskyldur eigandi vélknúins ökutækis beri hlutlæga ábyrgð á tjóni sem valdið er með notkun ökutækisins; þ.e. eigandinn þarf ekki að hafa valdið tjóninu sjálfur af ásetningi eða gáleysi til þess að bera skaðabótaábyrgð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert