Um tugur skipa var í gær á loðnuveiðum vestan við Reykjanes. Logn og blíða var á þessum slóðum, sennilega besta veðrið á vertíðinni, sagði einn skipstjórinn upp úr hádegi í gær.
Þá brá svo við að lítið fannst af loðnu og þeir sem voru búnir að kasta höfðu lítið fengið. Ekki eru margir dagar eftir af vertíðinni, en samt sem áður eru menn bjartsýnir á að kvótinn náist.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu er búið að landa um 530 þúsund tonnum af loðnu á vertíðinni. Í Vestmannaeyjum um 107 þúsund tonnum og rúmlega 92 þúsund tonnum í Neskaupstað.
Aflahæstu skipin eru Vilhelm Þorsteinsson EA með tæplega 40 þúsund tonn, Jón Kjartansson SU með tæp 35 þúsund tonn og Norðfjarðarskipin Birtingur og Beitir hafa komið að landi með tæp 33 þúsund og rúmlega 30 þúsund tonn.