Segir málstað ESB vonlausan

Jón Bjarnason, þingmaður VG.
Jón Bjarnason, þingmaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

„Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, flokksins sem var stofnaður m.a. til að berjast gegn aðild að ESB þurfa nú að ganga undir stjörnum ESB til vinnu sinnar,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður VG og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á heimasíðu sinni í dag.

Vísar hann þar til þess að skrifstofur þingmanna vinstri-grænna eru í sama húsi og sendiráð Evrópusambandsins hér á landi, en sendiráðið er á hæðinni fyrir neðan skrifstofur þingmannanna. Tilefni skrifanna er leiðari í Bændablaðinu þar sem fjallað er um heimsókn fulltrúa bænda á skrifstofur VG á dögunum í tengslum við Búnaðarþing.

Jón segir að glöggt sé gests augað og lýsingin í Bændablaðinu „á höfuðstöðvum þingflokks VG segir meira en mörg orð um þá aðlögun sem er í gangi að ESB: þ.e. herleiðing hugans.

Jón gagnrýnir síðan starfsemi Evrópusambandsins hér á landi og segir að fulltrúar sambandsins fari þessa dagana „með friðhelgisstjörnu alþjóðlegra diplómata í fundarherferð um landið til mæra sambandið og dreifa hlutlausum upplýsingum um ástandið í ESB, framtíðina og ekki síst að gagnrýna samtök bænda fyrir staðfestu þeirra í hagsmunum landbúnaðarins í ESB viðræðunum.“

Hann segir þó að þessi framganga muni ekki skila árangri þegar upp verði staðið. „En örvæntingarfull áróðursferð sendiráðsstarfsmanna ESB, sem fara jafnvel á svig við Vínarsáttmálann um réttindi og skyldur diplómata í gestalandinu mun skila þeim litlu enda málstaðurinn vonlaus.“

Skrifum sínum lýkur Jón síðan á að taka undir með leiðarahöfundi Bændablaðsins þar sem spurt er hvernig eigi „að láta stjórnendur Íslands hlusta og skilja að þjóðin vill ekki í ESB.“

Heimasíða Jóns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert