Setlaug þrætuepli nágranna

Fólk í setlaug. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Fólk í setlaug. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint. mbl.is/Árni Sæberg

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík sem samþykkti umsókn einstaklings um leyfi fyrir setlaug í bakgarði sínum. Kröfu um að setlaugin verði fjarlægð var hins vegar vísað frá.

Málið á sér sögu allt til maímánaðar 2010 en þá hugðist byggingarleyfishafi koma fyrir setlaug á trépalli í bakgarði raðhúss síns. Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar synjaði hins vegar um leyfi í desember 2010 með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykki nágranna mannsins.

Maðurinn kærði synjun byggingafulltrúans til úrskurðarnefndar sem felldi ákvörðunina úr gildi þar sem rök að baki henni þótti ekki haldbær. Í kjölfar þess leitaði maðurinn í annað sinn eftir samþykki fyrir nefndum framkvæmdum og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 29. mars 2011.

Í beinni sjónlínu og særir blygðunarkennd

Nágranni mannsins var ósáttur við þessar málalyktir og kærði samþykkt byggingafulltrúans til úrskurðarnefndar. Byggði nágranninn á því að ekki hafi verið látin fara fram grenndarkynning til að nágrönnum gæfist kostur á að koma á framfæri athugasemdum.

Í kæru nágrannans segir að setlaugin hafi í för með sér mikið ónæði, röskun og óþægindi fyrir sig. Hún sé í beinni sjónlínu og blasi við úr setustofu. Setlaugin hafi því bæði í för með sér hljóð- og sjónmengun, auk þess sem notkun hennar sé til þess fallin að særa blygðunarkennd nágrannans og gesta hans.

Þá tekur nágranninn fram að hann hafi búið í húsi sínu í þrjá áratugi og teljist umræddar framkvæmdir því veruleg breyting á nágrenni sínu og útsýni.

Samþykki nágrannans þurfti

Úrskurðarnefndin leitaði eftir málsrökum Reykjavíkurborgar vegna ákvörðunar byggingafulltrúans. Byggði hún málsrök sín á því að úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi synjun byggingafulltrúans á umsókn um leyfi fyrir nefndri setlaug. „Hafi Reykjavíkurborg ekki séð sér annað fært í kjölfarið en að samþykkja leyfi fyrir umræddum potti.“

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að við mat á því hvort veita ætti leyfi fyrir setlauginni bar byggingafulltrúa að líta til staðsetningar hennar og þeirra áhrifa er hún kynni að hafa gagnvart lóð nágrannans.

Fallist var á að setlaugin hefði veruleg grenndaráhrif gagnvart eign nágrannans, og að ekki hafi verið rétt að veita leyfi fyrir henni án samþykkis hans. Var ákvörðunin því felld úr gildi.

Nágranninn fór einnig fram á að lagð verði fyrir byggingafulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð. Í niðurstöðunni segir að það sé ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að kveða á um beitingu slíkra þvingunarúrræða enda liggi ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun þar sem tekin hafi verið afstaða til slíkrar kröfu. Var henni því vísað frá.

Mynd úr myndasafni. Þessi setlaug tengist ekki efni fréttarinnar.
Mynd úr myndasafni. Þessi setlaug tengist ekki efni fréttarinnar. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert