„Þrátt fyrir að kjörnir fulltrúar Samfylkingar séu sérfræðingar í „flokksbrotum“, eins og glöggt má sjá á Alþingi og víðar í þeirra ranni, vísa ég ummælunum til föðurhúsanna,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, um bókun fulltrúa minnihlutans um að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn.
Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is, greindi frá því í gærkvöldi að fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs segi Sjálfstæðisflokkinn í bænum klofinn og að nýleg fjölgun fulltrúafjölda í þremur nefndum sé til að tryggja báðum fylkingum flokksins mann í nefndunum.
Ármann segir að breytingarnar endurspegli fyrst og fremst þau málefni sem meirihlutinn vilji leggja áherslu á, ekki síst atvinnumál. „[E]n um leið viljum við koma til móts við það sjónarmið að fulltrúar allra framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn eigi aðalfulltrúa í mikilvægustu nefndum bæjarins.“
Þá bendir Ármann á, að það hafi verið fyrrverandi meirihluti, Vinstri grænna og Samfylkingar, sem upphaflega tók þá stefnu að stækka nefndir bæjarins, úr fimm fulltrúum í sjö á meðan flokkarnir voru í meirihluta. Jafnframt segir hann að Samfylkingin hafi verið eini flokkurinn sem greiddi atkvæði gegn tillögunni. Fulltrúi Næst besta flokksins greiddi atkvæði með henni og fulltrúi VG sat hjá.
„Það er von mín að fulltrúar Samfylkingarinnar hætti að eyða kröftum sínum í að fara gegn þegar samþykktum áherslubreytingum samfara nýjum málefnasamningi, heldur fari að leggja fram málefnalegar tillögur sem snúa að velferð íbúa bæjarins,“ segir Ármann Kr.