Helstu skíðasvæði landsins eru opin í dag, og tilvalið að skella sér á skíði, ef marka má tilkynningar á vefsvæðum skíðasvæðanna. „frábært færi, ný troðinn púðursnjór,“ segir til dæmis um Bláfjöll og „fjallið alveg glæsilegt, nýfallinn snjór yfir öllu,“ um segir um Skálafell.
Bæði í Bláfjöllum og Skálafelli verður opið frá kl. 10-17 í dag. Þó ber að nefna að um helgina fer fram FIS mót í stórsvigi í Skálafelli. Mótið verður keyrt í Svörtubrekku, þ.e. brattinn vestan stólalyftunnar, og verður sú leið lokuð almenningi. Allar aðrar leiðir eru öllum opnar.
Þá er opið í Böggvisstaðafjalli frá kl. 11-16. Þar er að sögn staðarhaldara flott færi og hæglætis veður. „Viljum minna á að hið árlega Jónsmót stendur yfir þessa helgi svo nú er um að gera að drífa sig í fjallið og hvetja krakkana,“ segir í tilkynningu frá þein á Dalvík.
Jafnframt er skíðasvæðið á Ísafirði er opið í dag kl. 11-15:30.
Og í Oddskarði verður opið frá kl. 10-16. Þar eru flestar leiðir troðnar.
Ennfremur er skíðasvæðið í Tindastóli opið í dag frá kl. 11 til 16. Þar bætti í snjóinn í nótt og bæði færi og veður eru til fyrirmyndar.