Gjaldeyrishöft eru eins og lyfjameðferð

Krónur.
Krónur.

„Gjaldeyrishöft eru eins og lyfjameðferð við erfiðum sjúkdómseinkennum. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er raunveruleg lækning fólgin í róttækum uppskurði.“ Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í grein á vef forsætisráðuneytisins um gjaldmiðlamál.

Jóhanna segir að stærsta verkefnið framundan er að undirbúa upptöku nýs gjaldmiðils og losa um höftin sem samofin eru krónunni. Skýr stefnumótun um framtíðarskipan í gjaldmiðilsmálum sé því eitt af brýnustu verkefnum stjórnmálanna á næstu misserum.

Hún segir að veigamikil rök hnígi að því að besti kosturinn sé að taka upp evru samfara aðild að Evrópusambandinu, ekki síst vegna þess að langstærstur hluti viðskipta okkar sé við lönd innan evrusvæðisins, eða 42 prósent þeirra. Til samanburðar nefnir hún að viðskipti Íslands í Kanadadollurum sé innan við tvö prósent, og með sama hætti eru viðskiptin tíu prósent í Bandaríkjadölum sem og í breskum pundum og dönskum krónum. „Loks er á það að líta að í ályktun Alþingis um aðildarviðræður við ESB er ekki gert ráð fyrir að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir upptöku annarra gjaldmiðla meðan viðræður standa yfir.“

Til í annað ef þjóðin fellir ESB

Þá nefnir Jóhann að á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra hafi verið skipuð samráðsnefnd allra flokka og aðila vinnumarkaðarins um mótun gengis- og peningamálastefnu. Nefndinni er ætlað að skila greinargerð til ráðherra fyrir lok maímánaðar. Viðfangsefni hennar eru að fara yfir helstu kosti þjóðarinnar í gjaldeyris- og peningamálum, hvort heldur sem þeir felast í því að halda krónunni eða taka upp aðra mynt.

Jafnframt vinnur Seðlabanki Íslands að viðamikilli skýrslu um leiðir í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar og er þess vænst að hún komi út með vorinu eða snemma sumars.

Ennfremur segir Jóhanna að hreinskiptin og opin umræða um nýjan gjaldmiðil sé þjóðarnauðsyn og mikilvægt að ræða og meta þá kosti sem í stöðunni kunna að vera. „Þetta á líka við um Samfylkinguna sem verður líka að vera opin fyrir umræðu um kosti og galla annarra gjaldmiðla ef svo illa færi að aðildarumsókn að ESB yrði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mínu viti kemur enda ekki til álita að búa við óbreytt ástand til framtíðar. Því skora ég á forystumenn allra stjórnmálaflokka að koma með opnum huga að þessu verkefni. Við þurfum þjóðarsátt um lausn á gjaldmiðilsvandanum.“

Evrur.
Evrur. mbl.is/reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert