Það er búið að snjóa mikið og rigna á Suðvesturlandi í vetur og því þarf ekki að koma á óvart að það hafi hækkað í vötnum í nágrenni Reykjavíkur. Þetta sést vel á Rauðavatni sem bókstaflega flæðir yfir bakka sína.
Göngustígur sem liggur með vatninu er að hluta til kominn á kaf. Þeir sem vilja ganga með vatninu verða því núna að nýta reiðstíginn sem liggur fjær vatninu.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var úrkoma í Reykjavík í janúar og febrúar um 90% yfir meðallagi.
Ekkert afrennsli er úr Rauðavatni og því ræðst vatnshæðin af því hversu mikil úrkoman er.
Hiti í Reykjavík í nóvember, janúar og febrúar var vel yfir meðaltali, en desember var hins vegar frekar kaldur.