„Þjóðin hefur val um stjórnarkreppu eða uppbyggingu"

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi sitjandi ríkisstjórn harðlega í ræðu …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi sitjandi ríkisstjórn harðlega í ræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins. Morgunblaðið/Golli

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins var harðorður í garð ríkisstjórnarinnar í ávarpi sínu á á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn geti einn flokka myndað raunverulegu kjölfestu í íslenskum stjórnmálum. „Margir segja mér að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera enn betur upp við liðna tíð, en það er hins vegar bjargföst skoðun mín að nú sé kominn tími til að horfa fram á við. Við megum ekki festast í fortíðinni.“ sagði Bjarni.

Hann ræddi Landsdómsmálið og kallaði það „örvæntingarfyllstu tilraun andstæðinga Sjálfstæðisflokksins til að festa þjóðina í þessu fari.“

Bjarni ræddi komandi kosningar og sagði að meðal annars yrði helst kosið um stefnu í atvinnumálum. Hann sagði að þjóðin hefði „val um viðvarandi stjórnarkreppu og glundroða annars vegar eða markvissa uppbyggingu á grundvelli frjálslyndrar framfarastefnu [hins vegar]".

Þá fór Bjarni yfir alvarlega greiðslu- og skuldastöðu þúsunda heimila á Íslandi og sagði að nauðsynlegt væri að ráðast gegn þeim vanda með markvissari hætti en gert hafi verið fram að þessu. Í því samhengi sagði hann að „af því kann að hljótast kostnaður en sé rétt haldið á málum verður félagslegur ávinningur mun meiri en tilkostnaður. Allt of fáir geta nýtt sér þau úrræði sem í boði eru og það þarf að einfalda þau úrræði.“

Hann gagnrýndi einnig málflutning pólitískra andstæðinga sinna. „Verðbólga hefur hlaupið í umræðu um leiðir út úr ástandinu. Skammtímalausnir og yfirboð eru vopn nýrra framboða sem þurfa á athygli að halda. Sum þeirra tala í fúlustu alvöru um peningaprentun sem lausn á vandanum.“ Hann bætti við að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki slást í för með „lukkuriddurum“ í nokkrum málaflokki.

Betri lífskjör til framtíðar

Bjarni ræddi ennfremur uppbyggingu bótakerfis og sagði í því samhengi að „munurinn á okkar áherslum og vinstriflokkanna er hvernig við kunnum að beita hvötum til að búa betri lífskjör til framtíðar. Það hlýtur að vera meginmarkmið hverrar ríkisstjórnar að búa svo um hnútana að borgararnir hafi hvata til að leggja meira á sig til að bera meira úr býtum.“ Hann gagnrýndi tekjutengingu og skattlagningu, fjármagnstekjuskatt, eignaskatt og gagnrýndi fyrirkomulag lífeyrissparnaðar og nefndi í því tilliti að enginn raunverulegur ávinningur sé fyrir fólkið í landinu að leggja til hliðar fyrir efri ár. „[Við] verðum að vinda ofan af þessari þróun.“ 

Ennfremur ræddi Bjarni um almannatryggingakerfið af miklum móð. „Innan ríkisstjórnarinnar ríkir grundvallarmisskilningur á eðli mannsins. Hví skyldi sá sem hefur jafn mikið eða meira á því að sitja heima fara út að vinna?“ spurði hann. „Almannatryggingakerfið á að tryggja öryggisnet en ekki vera í samkeppni við vinnumarkaðinn um vinnuaflið. Þegar það vinnur gegn þeirri hugsun að það borgi sig að vinna erum við komin á hættulega braut“

Hann sagði lágmarkslaunin of lág, en að horfast verði í augu við að til þess að geta greitt hærri laun og til að geta haft fleiri í vinnu þurfi að búa fyrirtækjunum viðeigandi umhverfi, sérstaklega hvað varðar skatta og regluverk. „Við verðum að hætta að fjármagna sókn í bótakerfið með framlögum fyrirtækja sem ættu að fara í að hækka laun og ráða fólk til vinnu.“

Krónan aldrei brugðist

Gjaldeyrismál voru áberandi í erindi Bjarna og sagði hann, að skort hafi á yfirvegun og varúð í umræðu um gjaldmiðilinn að undanförnu. Um krónuna sagði hann: „Ef við horfum áratugi aftur í tímann sjáum við að krónan hefur verið mjög óstöðugur gjaldmiðill. Þó er það svo að þegar ríkissjóður hefur verið rekinn af ábyrgð og sátt hefur ríkt á vinnumarkaði um að halda verðbólgu í skefjum og nýta auðlindir og skapa verðmæti, þá hefur krónan aldrei brugðist okkur. Krónan hefur ekki gert annað en að endurspegla ástandið í efnahagsmálum hverju sinni.“ Hann sagði pólitíska hagmuni umfram aðra hafa valdið því að evran var innleidd í Evrópuríkjum. Bretar hafi haft varan á og ekki innleitt hana. Samstarf um sameiginlega mynt hefði í sögunni ávallt endað með tvennu: það liðast í sundur eða leitt til opinbers samruna þar sem samþætting fjármuna varð algjör.

Hann sagði að um þessar munir væri verið að róa öllum árum að því að samþætta opinber fjármál evruríkjanna, ella sjái menn að samstarfið muni liðast í sundur. Stefnt sé að enn frekari opinberum samruna evruríkjanna, og gríðarleg óvissa ríki um framtíð evrusamstarfsins. Þennan óróa, sjái allir aðrir en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, segir segi evruna einu von Íslands. „Ótrúlegt er að sjá forsætisráðherra stilla þjóð sinni upp við vegg og segja „annað hvort eruð þið með mér í liði eða þá stefnum við til glötunar“. Í öðrum Evrópuríkjum horfa menn af meira raunsæi á ástandið í Evrópu en gert er hér á landi undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.“

Bjarni sagði nauðsynlegt að móta aga í ríkisfjármálum. „Kjörtímabilið er meira og minna farið algjörlega forgörðum til að innleiða stefnu sem við þurfum á að halda til að ná árangri. Í tengslum við afnám krónu sagði Bjarni að „með því að gefa frá sér sinn eigin gjaldmiðil er miklu fórnað í efnahagslegu sjálfstæði þjóða. Okkar verkefni að treysta stöðu okkar á grundvelli íslensku krónunnar. Á næstu árum er sjálfsagt að vega og meta aðra kosti en það er ekkert sem knýr á um það að við köstum frá okkur krónunni.“

Að endingu fordæmdi Bjarni meðferð rammaáætlunar og sagði að vinnubrögð í tengslum við það mál væru „forkastanleg“ og að áður en drög að þingsályktun um áætlunina komu fram hefðu stjórnarflokkarnir með baktjaldamakki tínt út vænlega virkjanakosti. „Eftir þetta voru drög að rammaáætlun lögð fram til kynningar og berast fréttir um að enn frekar verði tínt út úr nýtingarflokki nokkra hagkvæma kosti, meðal annar úr neðri-Þjórsá. Öfgamenn í umhverfismálum er að taka orkumál á Íslandi í gíslingu og þar með verðmæta-og atvinnusköpun til framtíðar. Um þetta getur ekki tekist nein sátt.“

Bjarni lauk þó ræðu sinni með bjartsýnisblæ: „ Við eigum mikil auðæfi en þurfum kjark  til að framkvæma. Þann kjark hefur Sjálfstæðisflokkurinn. Við þurfum nýja ríkisstjórn og um það verður kosið í næstu kosningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert