Þorbjörn fékk menningarverðlaun

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri, Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri hjá Þorbirni hf. og …
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri, Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri hjá Þorbirni hf. og Kristinn J. Reimarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs. mbl.is

Þorbjörn hf. fékk menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2012 við upphaf menningarviku í Grindavíkurkirkju í dag, fyrir minja- og myndasýningu sína. Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri og einn eigenda fyrirtækisins, veitti viðurkenningunni móttöku en hann stóð fyrir því að árið 2010 setti fyrirtækið upp sýningu á gömlum munum og myndum sem safnast hafa upp hjá fyrirtækinu í gegnum árin, bæði tengdum fiskveiðum og fiskvinnslu. 

Óskað var eftir tilnefningum frá bæjarbúum til menningarverðlaunanna. Í umsögn frístunda- og menningarnefndar Grindavíkur kemur fram að mikil metnaður hefur verið lagður í þessa sýningu og þetta framtak fyrirtækisins afar lofsvert til að varðveita þá menningu sem tengist sjávarútveginum í Grindavík. Á flettiskjám er sýndar gamlar myndir frá starfsemi fyrirtækisins. Sýningin eru í níu gluggum, sem innréttaðir eru sem sýningargluggar. Í gömlu fiskmóttökulúgunum við gamla salthúsið, sem nú hýsir Veiðafæraþjónustuna ehf., við Ægisgötu (Garðvegsmegin) eru átta gluggar og einn gluggi er svo að Hafnargötu 12, þar sem skrifstofa fyrirtækisins er.

Jafnframt hefur fyrirtækið sett töluverða upphæð og vinnu í að skanna inn myndasafn Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar, fyrrverandi kennara í Grindavík. Það framtak er sömuleiðis lofsvert og mun halda á lofti sögu samfélagsins í Grindavík, sérstaklega tengt sjávarútveginum, en Ólafur var ansi duglegur að festa samfélagið í Grindavík á filmu og safn hans ómetanleg heimild um þá uppbyggingu sem Grindavík hefur gengið í gegnum á undanförnum áratugum. Fyrirhugað er að nokkrar af þessum myndum muni prýða grindverk fyrirtækisins sem liggur með fram Bakkalág og er stefnt að því að það verði tilbúið fyrir sumarið.

Þessi stefna fyrirtækisins að leggja metnað í að varðveita muni og myndir og hafa það sýnilegt gestum og gangandi er til fyrirmyndar og vonandi til eftirbreytni fyrir önnur fyrirtæki í Grindavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert