Hef lært að lifa með áföllunum

Helgi Pétursson
Helgi Pétursson Morgunblaðið/RAX

Helgi Pétursson var unglingur þegar hann stofnaði Ríó-tríóið ásamt félögum sínum Ólafi Þórðarsyni og Halldóri Fannar. Ólafur og Halldór létust báðir með tveggja mánaða millibili sitthvorumegin við síðustu áramót. Ólafur eftir árás sem hann varð fyrir og Halldór varð bráðkvaddur. Helgi segist trúlega hættur tónlistarflutningi en sér um vikulegan tónlistarþátt, Óskastundina, í Ríkisútvarpinu. Aðalstarf hans er að reka fyrirtækið Orkusýn ehf. sem sér um jarðhitasýningu á Hellisheiðarvirkjun.

Helgi er fyrst spurður um starf sitt hjá Orkusýn. „Ég vann við það frá árinu 2001 að skipuleggja þetta verkefni, jarðhitasýningu, og þá sem starfsmaður Orkuveitunnar. Þegar Orkuveitan sagði upp fjölda starfsmanna var ég þar á meðal og einnig Auður Björg Sigurjónsdóttir móttökustjóri og samstarfsmaður til margra ára og þegar jarðhitasýningin var boðin út buðum við Auður í reksturinn og höfum nú rekið fyrirtækið í ár,“ segir Helgi. „Ég hef mjög gaman af því sem við erum að gera. Ég er stoltur af að sýna gestum og gangandi jarðhitanýtingu okkar Íslendinga sem er einstök. Útlendingar verða bæði hrifnir og undrandi þegar þeim er sagt að 90 prósent af húsum á eyjunni séu hituð með jarðhita. Hingað koma meðal annarra stjórnmálamenn frá fjölmennum ríkjum eins og Kína og Indlandi og heillast af því sem þeir sjá hér. Hverjar eru þeirra mestu áhyggjur? Jú, orkumál.“

Reynsla af krabbameini

Helgi skartar yfirvaraskeggi, eins og hann hefur reyndar gert í áratugi. En þar sem nú er mottumars er hann spurður um átak Krabbameinsfélagsins vegna baráttunnar gegn krabbameini hjá körlum. Þá kemur í ljós að hann hefur sterka og djúpa sannfæringu fyrir því átaki, enda hefur hann reynslu af krabbameini. „Ég hef sjálfur fengið krabbamein, í blöðru, fyrst fyrir um fimmtán árum og síðan aftur í blöðruhálskirtil fyrir þremur árum,“ segir hann. „Þegar ég greindist í fyrra sinnið hafði ég svosem ekkert hugsað sérstaklega um að ég gæti fengið krabbamein, þó svo að ég hefði átt að hugsa um það því við bræðurnir, sem erum fjórir, misstum móður okkar unga. Hún dó frá okkur rúmlega fertug úr krabbameini. Þá var ég nítján ára, elsti bróðirinn tuttugu og tveggja og yngri strákarnir tíu og sex ára.

Þetta hefur verið skelfilegt áfall fyrir fjölskylduna.

„Þetta var mikið högg. Mamma tærðist upp á einu ári. Hún var heima eins lengi og hún gat en síðan fór hún á spítala og öll vissum við að hverju stefndi þótt ekki væri talað um það. Við bræðurnir bitum bara á jaxlinn. Þannig var áföllum mætt á þeim tíma. Þetta var gríðarlegur missir fyrir okkur fjölskylduna. Mamma var gleðigjafi og söngmanneskja og það trosnaði verulega úr ýmsu þegar hún féll frá.“

Þú segist hafa fengið krabbamein fyrir fimmtán árum og síðan fyrir þremur árum. Hvernig brástu við?

„Þegar krabbameinið kom aftur fyrir þremur árum fannst mér það ekki vera neitt tiltökumál enda eru lækningar til. Mér var meira brugðið í fyrra skiptið því þá var ég með ung börn, en veikindin voru tekin föstum tökum strax í upphafi og það var komist fyrir þau. Síðan er ég búinn að vera í reglulegum rannsóknum. Ég hef öðlast mikla reynslu af því að liggja í sömu stellingu og konur, með fætur uppi á bekk og er kannaður með svipuðum hætti og þær. Lækningin hefur gengið vel og ég hef fengið fínan bata. Ég hef verið heppinn og hræðist ekki neitt. Snorri Þorgeirsson krabbameinslæknir, sem er frændi konunnar minnar, sagði við mig þegar krabbameinið hafði látið aftur á sér kræla: Ég hef engar áhyggjur af þér, Helgi. Þú ert svo jákvæður að þú munt yfirvinna veikindin.

Hvað varðar Mottumarsinn þá hvet ég karlmenn til að fara í rannsókn því krabbamein í blöðruhálsi er miklu algengara en menn ætla. Ég held að við karlar hugsum oft þannig að það sé óþarfa pjatt að standa í því að fara í rannsókn. Þetta er ekki réttur hugsunarháttur. Menn mega heldur ekki vera svo hræddir við að fá slæmar fréttir að þeir fari ekki í rannsókn. Ég hvet þá karlmenn sem greinast með krabbamein til að lifa ekki í óttanum heldur tala við fjölskyldu sína um veikindi sín.“

Ertu mjög jákvæður í eðli þínu?

„Ég er það og hef alltaf verið. Ég mikla ekki hluti fyrir mér. Ég hef gaman af fólki og er gefinn fyrir margbreytileika. Ég kann vel við að vera með mörg járn í eldinum og vasast í ýmsu. Mér hefur auðvitað mistekist en alltaf staðið upp aftur og hef aldrei skollið verulega illilega til jarðar. Ég hef orðið fyrir ýmsum áföllum, en maður verður að reyna að jafna sig á þeim. Maður reynir að druslast til að vera almennilegur. Fyrsta og þyngsta áfallið í mínu lífi var andlát móður minnar. Það er sagt að tíminn lækni öll sár. Ég hef svosem enga sérstaka trú á því en maður lærir að lifa með áföllunum. Móðir mín kemur oft upp í hugann og sömuleiðis þeir félagar mínir sem hafa fallið frá.“

Stutt bil milli lífs og dauða

Þú misstir félaga þína úr Ríó-tríóinu á stuttum tíma, Ólaf Þórðarson, sem starfaði með þér allan tímann, og Halldór Fannar, sem var í Ríó-tríóinu í upphafi en hætti svo. Þeir Ólafur og Halldór urðu ekki gamlir menn.

„Þeir voru alltaf of ungir, alltof frískir og alltof skemmtilegir til að deyja svo snemma. Óli lifði meðvitundarlaus í þrettán mánuði eftir hryllilega árás. Það er ekki auðvelt að horfa upp á vin sinn fara þannig. Við ólumst svo að segja upp saman frá níu ára aldri og vorum að garfa í alls konar hlutum. Það varð stundum hlé á því sem við vorum að gera í músíkinni en við vorum mikið saman alla tíð.

Til að byrja með trúði ég því að Óli myndi ná sér. Ég kom mikið til hans á spítalann. Maður veit aldrei hvað fólk skynjar við þessar aðstæður en fyrstu mánuðina fannst mér hann vera að fylgjast með umhverfinu. Ég fékk mér til dæmis nýja fartölvu á þessu tímabili og fór með hana upp á spítala og var lengi hjá Óla einn laugardag að baksa við hana. Mér fannst hann vera að fylgjast með mér því hann var mikill tölvugúrú og þetta var nokkuð sem hann hefði haft mikinn áhuga á. Undir lokin gerði ég mér grein fyrir því að Óli var farinn. Líkaminn var þarna en það var ekkert líf eftir. Þá fór maður að biðja og vona að þessu færi að ljúka sem allra fyrst. Þetta var alls ekki sú staða sem Óli vildi vera í, við höfðum oft rætt það að við vildum ekki skilja hvor við annan í ástandi eins og þessu.

Þetta var skelfilegt og það var ekkert hægt að gera. Bara bíða. Þessi hræðilegi atburður varð til þess að Halldór kom aftur inn í mitt daglega líf. Við þrír höfðum stofnað saman Ríó-tríóið kornungir en þegar Halldór fór í tannlæknanám hætti hann og Ágúst Atlason tók við. Halldór kom oft upp á spítala til Óla og þar hittumst við reglulega. Svo allt í einu, rúmum tveimur mánuðum eftir að Óli dó, varð Halldór bráðkvaddur, fékk hjartaáfall. Þetta fráfall vina minna, og krabbameinið, minnir mig stöðugt á hversu stutt bilið er milli lífs og dauða.“

Trúirðu á líf eftir dauðann?

„Já, ég geri það. Ég trúi að við séum hér á jörðinni á ferðalagi og birtumst eftir dauðann í annars konar formi á öðrum stað. Við sjáum að maðurinn getur skapað ótrúlega mikið á þeim stutta tíma sem ein mannsævi er. Það getur ekki verið að maðurinn og stórverk mannsandans séu bara einnota. Ég trúi því allavega ekki.“

Fann mig ekki í pólitík

Þú starfaðir um tíma í pólitík og varst borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans. Hvernig kunnirðu við þig í pólitíkinni?

„Ég afplánaði átta ár í pólitík. Ég segi afplána af því að ég fann mig ekki í pólitíkinni. Ég er þannig gerður að ég get ekki sagt endalaust já heldur verð að geta sagt nei ef mér finnst rétt að segja nei. Mér líkaði ekki margt af því sem ég sá og heyrði meðan ég var í pólitík. Og ekki hefur pólitíkin skánað. Maður hlýtur að staldra við það að einungis 10 prósent þjóðarinnar treysta Alþingi. Þetta er svo skelfileg staða að maður spyr sig hvort það eigi kannski bara að leggja þessa stofnun niður. Hvað erum við að gera með Alþingi ef svo að segja enginn ber lengur traust til stofnunar sem á að vera hornsteinninn í lýðræðisumræðunni?“

Er þetta vantraust á Alþingi ekki stjórnmálamönnunum sjálfum að kenna?

„Þetta er engum öðrum að kenna. Ég held að stjórnmálamenn okkar séu vel meinandi en þeir eru fyrir löngu komnir á villugötur í umræðu sem er svo sérkennileg að það er með ólíkindum. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að tími þingmanna fari í fjálglegar yfirlýsingar um það hvernig þeim tókst að gera pólitískan andstæðing kjaftstopp. Þetta er „Sjáið þið hvernig ég tók hann!“-pólitík. Þegar svo er skiptir það ekki miklu máli hvað fólk á Alþingi er að þvarga um. Innihaldið er horfið. Ég vil miklu frekar eyða tíma mínum með konu minni, Birnu Pálsdóttur, börnunum okkar fjórum og þeim átta barnabörnum sem ég á nú þegar en að fylgjast með svona kjaftæði.“

Nú er dóttir þín, Heiða Kristín, framarlega í Besta flokknum. Hvernig finnst þér Besti flokkurinn hafa staðið sig?

„Mér finnst Besti flokkurinn hafa staðið sig vel. Þar hefur verið gerð góð tilraun til að haga pólitískri umræðu öðruvísi en gert hefur verið. Besti flokkurinn hefur allavega gefið fólki tækifæri til að staldra við og íhuga að kannski sé hægt að gera hlutina öðruvísi. Ég fagna því sem Besti flokkurinn er að gera og trúi því að hann eigi eftir að breyta ýmsu í íslenskri pólitík.

Það hefur verið gerð tilraun til að spyrða Heiðu, dóttur mína, og mig saman. Það er eins og ekki sé hægt að hlusta á það sem hún hefur að segja heldur er spurt: Hver er það sem segir henni hvað hún eigi að segja? Það er þessi hugsun sem er að eyðileggja íslensk stjórnmál. Einhver stígur fram á sviðið og þá er ekki hægt að hlusta á viðkomandi heldur er spurt hverra manna hann sé. Ég hef ekkert haft um Besta flokkinn og málefni hans að segja og ég hef ekki verið að móta málflutning dóttur minnar. Sama má segja um tónlistarflutning Snorra sonar míns, um störf Péturs sonar míns sem er natinn stoðtækjafræðingur og um Bryndísi, þá eldri, sem er flinkur kennari með mörg fjölfötluð börn undir sínum verndarvæng.“

Saknarðu þess að starfa sem tónlistarmaður?

„Ég sakna þess að því leyti að við í Ríó-tríóinu vorum ekki búnir að gera það sem við ætluðum okkur að gera. Við vorum í miðri tónleikaröð þegar ógæfan skall yfir. Við ætluðum að gera ýmislegt og ég harma það að hafa ekki fengið að ljúka þeim verkefnum með félögum mínum.“

Ríó tríó í fullu fjöri ásamt hjálparkokkum.
Ríó tríó í fullu fjöri ásamt hjálparkokkum. Morgunblaðið/Kristinn
Helgi Pétursson.
Helgi Pétursson. Morgunblaðið/RAX
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert