Íslenskar eldstöðvar ógna Bretum

Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull mbl.is/Árni Sæberg

Gos í íslenskum eldstöðvum og sólstormar teljast nú vera ein helsta ógnin við þjóðaröryggi Bretlands ef marka má nýjan hættulista stjórnvalda þar í landi. Á listanum, sem nýlega var uppfærður, má einnig finna inflúensufaraldur, hamfaraflóð og hryðjuverk. Kemur þetta fram á fréttavef Washington Post.

Í hættumatinu er bent á áhrif gossins í Eyjafjallajökli á flugumferð í Evrópu en skýrsluhöfundar virðast þó hafa meiri áhyggjur af gosstöðvum á borð við Lakagíga sem spúa eitruðum gosgufum langar leiðir. Benda þeir m.a. á að í gosinu 1783 hafi aska og gosgufur borist yfir Evrópu og Asíu með þeim afleiðingum að uppskerubrestur varð og þúsundir manna létu lífið.

Jafnframt er bent á þá hættu sem stafar af sólstormum en þeir geta m.a. truflað fjarskipti, gps-staðsetningartæki, rafmagn og skaðað gervitungl. Til marks um áhrif slíkra storma má nefna að árið 1989 sló kraftmikill sólstormur út rafmagni í Quebec í Kanada með þeim afleiðingum að sex milljónir manna urðu rafmagnslausar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert