Vill ekki auka framlög til Hjálpræðishersins

Hjálpræðisherinn hefur í gegnum árin aðstoða utangarðsfólk í Reykjavík.
Hjálpræðisherinn hefur í gegnum árin aðstoða utangarðsfólk í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúi VG í velferðarráði Reykjavíkurborgar lýsti andstöðu við það á fundi í ráðinu fyrr í mánuðinum að borgin væri að „beina utangarðsfólki í auknum mæli í dagsetur á vegum gildishlaðinna lífsskoðunarsamtaka“.

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar hefur lagt fram tillögur um aukna þjónustu við utangarðsfólk. Tillögurnar fela m.a. í sér að sett verður á stofn færanlegt teymi borgarvarða, samstarf við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands verður aukið og Dagsetrið verður eflt, en setrið var stofnað árið 2007 og er rekið af Hjálpræðishernum. Velferðarráð hefur samþykkt tillögurnar, en þær kosta um 40 milljónir króna.

Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í velferðarráði, lét bóka að hann fagnaði aukinni þjónustu við utangarðsfólk. Færanlegt teymi fagfólks úr röðum starfsmanna borgarinnar, samvinna við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands ætti tvímælalaust eftir að auka lífsgæði margra úr röðum þeirra sem teljast utangarðs. „Það er þó miður að Reykjavíkurborg skuli jafnhliða þessari ákvörðun kjósa að beina utangarðsfólki í auknum mæli í dagsetur á vegum gildishlaðinna lífsskoðunarsamtaka. Fulltrúi Vinstri grænna hefur ekkert við sjálfboðastarf Hjálpræðishersins að athuga en telur ekki ásættanlegt að verið sé að veita fjármagn og faglega aðstoð af hálfu borgarinnar til úrræðis á þeirra vegum þegar aðrir kostir eru ekki fyrir hendi. Vandi flestra ef ekki allra sem teljast til utangarðsfólks er heilbrigðisvandi sem taka á sömu tökum og önnur heilbrigðisvandamál en ekki í anda trúboðasjúkraskýla liðinna alda.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu gagnrýndi að engin þarfagreining hefði verið lögð fram áður en ákveðið hefði verið að leggja 40 milljónir í þetta verkefni. Fráleitt væri að samþykkja fjárveitinguna án ítarlegar skoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert