Dætur Íslands öflugar í CrossFit

Annie Mist tekur við verðlaununum þegar hún varð heimsmeistari í …
Annie Mist tekur við verðlaununum þegar hún varð heimsmeistari í CrossFit 2011. Til vinstri er Kristan Clever og til hægri Rebecca Voigt, sem varð þriðja.

Íslenskar konur skipa nú 5 af efstu 10 sætunum yfir Evrópu á heimsleikunum í Crossfit 2012, sem hófust þann 22. febrúar. Vakið er máls á þessu á vef leikanna og vöngum velt yfir því hvað sameiginlegu eiginleika, aðra en endinguna -dóttir, íslenskar konur hafi sem skili þeim á toppinn.

Á toppi evrópska þátttakenda trónir auðvitað engin önnur Annie Mist Þórisdóttir, sem varð heimsmeistari í CrossFit í fyrra. Í 2. sæti er Katrín Tanja Davíðsdóttir, í 3. sæti Þuríður Erla Helgadóttir, í 5. sæti Hjördís Óskarsdóttir og í 9. sæti Björk Óðinsdóttir. „Íslenska forskotið" eins og það er kallað er til umfjöllunar á vef leikanna þar sem segir að auðvelt sé að greina íslensku konurnar frá öðrum keppendum á listanum, því nöfnin þeirra endi öll á -dóttir.

Genin eða hugarfarið?

Fleira hlýtur þó að koma til, en greinarhöfundur CrossFit leikanna segir að hver hafi sína kenningu um leyndardóminn baki hreysti íslenskra kvenna. Sumir vilja meina að þetta sé einfaldlega í genunum. Aðrir segja að það sé hugarfarið, íslensku keppendurnir búi yfir andlegum styrk og geri miklar kröfur til sjálfra sín. Breskur keppandi telur að íslensku konurnar búi að því að heilbrigður lífstíll sé mikils metinn í íslenskri menningu.

Greinarhöfundur CrossFit síðunnar segir lesendum þó að gefast ekki upp. „Pabbi þinn þarf ekki að vera nefndur eftir þrumuguði með hamar að vopni svo þú getir staðið þig vel í CrossFit," og vísar þar í föðurnafn Annie Mistar Þórisdóttur. 

Opni hluti CrossFit leikanna 2012 stendur frá 22. febrúar til 25. mars. Þá tekur við svæðakeppni frá apríl fram í maí og loks úrslitaleikarnir sjálfir sem fara fram 13. - 15. júlí í Kaliforníu.

Greinina má lesa í heild hér á fréttavef CrossFit leikanna 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert