Frá árinu 2007 hafa íslenskir skattgreiðendur verið látnir standa undir liðlega tvö þúsund milljónum króna vegna starfsemi íslenskra stjórnmálaflokka. Því má halda því fram að stjórnmálaflokkarnir séu á framfæri ríkisins. Þetta segir í pistli eftir Óla Björn Kárason á vefritinu T24 í dag.
Óli Björn, sem sat um tíma á þingi sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að stjórnmálaflokkar hafi verið settir á jötu ríkisins með lögum sem samþykkt voru í desember 2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Með þeim sé komið í veg fyrir að flokkar afli sér fjárhagsstuðnings líkt og þeir gerðu áður, en þeim í staðinn tryggður aðgangur að ríkiskassanum. Óli Björn segir að lögin geri nýjum flokkum erfiðara um vik og útiloki jafnvel ný stjórnmálasamtök.
Óli Björn bendir á að með þessu fyrirkomulagi hafi kjósandi sem berjist gegn Sjálfstæðisflokknum engu að síður verið skyldaður til að fjármagna starfsemi hans. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi einnig verið gert að greiða til VG. „Það er eitthvað öfugsnúið við það að neyða mann til að styrkja félagsskap sem gengur gegn öllu því sem hann trúir,“ segir Óli Björn.
Pistil Óla Björns má lesa í heild sinni hér.