„Við erum óskaplega þakklátir, þeir komu tveimur til þremur klukkustundum eftir að við sendum neyðarboðin. Við áttum von á að þurfa að bíða miklu lengur,“ segir Geert De Smedt, annar Belganna tveggja sem sóttir voru af björgunarsveitum og þyrlu Gæslunnarupp á Vatnajökul á laugardagskvöldið.
Þeir settu neyðarsendi í gang eftir að tjald þeirra rifnaði í hvössu veðri og voru orðnir kaldir og nokkuð þrekaðir þegar hjálp barst.
Geert og félagi hans, Wim Venneman, lögðu á jökulinn tæpri viku áður, á sunnudegi, og höfðu, áður en þeir lögðu af stað, tilkynnt að þeir ætluðu að ganga á Vatnajökul. Þeir eru með lítilsháttar bakmeiðsli eftir að hafa borið þungar byrðar í ferðinni, en eru að öðru leyti vel á sig komnir.
„Við lögðum af stað frá Snæfelli og vorum á skíðum uppi á jöklinum. Við vorum með vindinn á móti mestallan tímann og fórum yfirleitt 10-15 kílómetra á hverjum degi,“ segir Geert.
„Þetta varð ómögulegt“
Hann segir að förinni hafi verið heitið að veitingaskálanum Jöklaseli, sem er við jaðar Skálafellsjökuls. „Við vorum um 15 kílómetra frá áfangastað, en um sjöleytið um kvöldið byrjaði að snjóa og það var líka mikið hvassviðri.“
Þeir komu sér þá fyrir í tjaldi sínu, en stuttu síðar brotnuðu súlurnar. „Við sátum saman undir tjaldinu og reyndum að halda því uppi, en eftir því sem tíminn leið varð þetta æ verra og loks ómögulegt. Við sendum þá merki úr neyðarsendi, sem við höfðum leigt í Reykjavík, og tveimur eða þremur tímum síðar komu björgunarsveitir.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar og sveit frá Björgunarfélagi Hornafjarðar sóttu þá Geert og Wim og þá voru þeir orðnir kaldir og nokkuð þrekaðir. Björgunarfélagið var á tveimur bílum með fjóra sleða.
Þeir voru fluttir til Hornafjarðar, þar sem þeir hafa dvalið síðan.
Hárrétt ákvörðun
Geert segir að björgunarsveitarmennirnir hafi sagt að sending neyðarboðanna hafi verið hárrétt ákvörðun, sú besta sem þeir hafi getað tekið við þessar aðstæður. „Kannski hefðum við ekki haft það af í gegnum nóttina, ég veit það ekki. En björgunarsveitarfólkið var yndislegt og þau voru glöð að finna okkur svona fljótt.“
Voruð þið hræddir á meðan þið biðuð eftir björgun?
„Nei, í rauninni ekki. Við höfðum skjól undir tjaldinu, en það var erfitt að taka ákvörðunina um að senda út neyðarboðin. Við vissum auðvitað ekkert um hvernig veðrið myndi þróast og það var stutt á áfangastað. Kannski hefðum við getað komist á leiðarenda. Auðvitað eru þetta smávonbrigði, en þetta var rétta ákvörðunin.“
Geert er reyndur útivistarmaður og hefur farið fjölmargar jöklaferðir, auk þess að hafa gengið á fjöll, einkum eldfjöll, víða um heim. Hann er nú í fimmtu heimsókn sinni til Íslands, en þetta er í fyrsta skipti sem Wim er hér á landi.
Einstakar björgunarsveitir
Þeir verða hér á landi fram á föstudag og Geert segir ekki standa til að gera aðra atlögu að jöklinum að sinni. Félagarnir ætla að skoða sig um á Austurlandi og bregða sér í Bláa lónið áður en þeir yfirgefa landið.
Geert er ánægður með hvernig fór og þakklátur björgunarsveitum sem hann segir „einstakar“.