Tíminn sem Alþingi hefur til að afgreiða nokkur stórmál er orðinn afar stuttur, aðeins fimm vinnudagar fram að mánaðamótum. Bæði Samfylkingin og VG hafa lagt mikla áherslu á að afgreiða tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Einnig þarf að ná niðurstöðu um stjórnarskrármálið og rammaáætlun. Loks má nefna sölu á ríkiseignum en í fjárlögum er gert ráð fyrir sjö milljarða tekjum af sölu.
Þingflokksfundir voru á Alþingi í gær. Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði að fjallað hefði verið meðal annars um frumvarp ráðherra um sölu ríkiseigna.
„Við leggjum ofuráherslu á að ljúka þessum málum fyrir vorið,“ sagði Magnús. „Stjórnarskrármálið er á dagskrá stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins á morgun [í dag] og þar er unnið samkvæmt áætlun. Nefndin er búin að taka við hugmyndum stjórnlagaráðs og viðbrögðum við þeim og fjallað verður um þau á fundi nefndarinnar. Við stefnum að því að geta borið tillögurnar undir þjóðina samfara forsetakosningum í sumar.“