Kosið verði um tillögur Stjórnlagaráðs í sumar

Frá Stjórnlagaráði.
Frá Stjórnlagaráði. mbl.is/Golli

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja það til að kosið verði um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá samhliða forsetakosningunum sem fram fara 30. júní í sumar. Þetta staðfestir Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Um ráðgefandi þjóðaratkvæði verður að ræða þar sem þjóðin verður innt álits á fimm atriðum sérstaklega. Hvort náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, hvort ákvæði um þjóðkirkju skuli standa óhaggað og um vægi atkvæða kjósenda á landsvísu.

Ennfremur hvort ákveðinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðis, þá 10%, 15% eða 20%. Þá verður spurt um það hvort innleiða eigi persónukjör í auknum mæli.

Málið verður lagt fram á Alþingi í dag og segir Valgerður að vonir standi til að það verði tekið til umræðu í þinginu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert