Sýslumönnum fækki úr 24 í átta

Fækka á sýslumönnum en fjölga lögregluumdæmum
Fækka á sýslumönnum en fjölga lögregluumdæmum mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt nýju frumvarpi sem innanríkisráðuneytið hefur kynnt er gert ráð fyrir að sýslumannsembættunum fækki úr 24 í átta. Samhliða verði löggæsla skilin frá starfsemi sýslumanna og stofnuð sex ný lögregluembætti og að þau verði alls átta.

Frumvarpið er í veigamiklum atriðum efnislega samhljóða tillögum sem settar voru fram í skýrslu sem Þorleifur Pálsson, fyrrverandi sýslumaður, samdi á árinu 2010 að beiðni ráðuneytisins og fjallaði um tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta í landinu.

Sama umdæmaskipting sýslumanna og lögreglu

Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru eins og áður sagði þær að sýslumannsembættum verður fækkað úr 24 í 8. Stjórnsýsluumdæmin verði Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland, Suðurnes og höfuðborgarsvæðið.

Þetta er sama umdæmaskipting og lagt er til að gildi fyrir löggæsluna í landinu skv. nýju frumvarpi þar að lútandi.

Gengið er út frá því að skipulagsbreyting sem í frumvarpinu felst og áform um stofnun nýrra lögregluembætta samkvæmt lögreglulögum hafi ekki í för með sér miklar breytingar á húsnæði.

Í öllum tilvikum yrði leitast við að nýta núverandi húsnæði sýslumanna eins og mögulegt er, bæði undir starfsemi sýslumanns sem og lögreglu ef því verður við komið.

Á að taka gildi 2015

Frumvarpið kveður á um að hið nýja skipulag taki gildi árið 2015. Að mótun þess munu allir starfsmenn embættanna koma í því stefnumótunarferli sem er hafið af hálfu innanríkisráðuneytisins.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að hægt sé að stíga ákveðin skref í átt að hinu nýja skipulagi fyrr, t.d. með sameiningu embættisverka tveggja eða fleiri embætta þar sem sami sýslumaður gegnir embættunum, eða með sameiningu, sé slík leið fær sbr. ákvæði til bráðabirgða.

Öllum starfsmönnum boðið starf hjá nýjum embættum

Hvað starfsmenn varðar er gert ráð fyrir því að þeim verði öllum boðið starf hjá nýjum embættum, sem taka við öllum réttindum og skyldum hinna gömlu embætta. Sýslumenn hinna nýju embætta verða valdir úr hópi starfandi sýslumanna, öðrum verða boðin störf við hin nýju embætti, að því er fram kemur á vef innanríkisráðuneytisins.

Frumvarpsdrögin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert