„Allt óklárt og óhugsað“

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Því miður er þetta enn eitt dæmi um fráleit vinnubrögð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Fyrst í dag er lýðum ljóst um hvað á að spyrja í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu - allt óklárt og óhugsað,“ skrifaði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sína í gærkvöldi.

Eins og mbl.is greindi frá í gær samþykkti meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær að leggja það til við Alþingi að tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verði borin undir þjóðaratkvæði í sumar samhliða forsetakosningum sem fyrirhugaðar eru 30. júní næstkomandi.

Spurt verður: „Viltu að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“ Þá verður einnig spurt um afstöðu kjósenda til fimm atriða sérstaklega og þar á meðal um persónukjör, stöðu þjóðkirkjunnar og vægi atkvæða.

„Enginn veit hvernig fara á með niðurstöðuna. Því miður ber þetta allt þess merki að það hafi þurft að haka í dálkinn: að senda tillögur stjórnlagaráðs í einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Ólöf.

Facebook-síða Ólafar Nordal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert