Rekstrarumhverfi fyrirtækja var rætt á borgarstjórnarfundi í gær að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Segja Sjálfstæðimenn ljóst að rekstrarumhverfi fyrirtækja í borginni sé mjög óhagstætt um þessar mundir ef marka megi kannanir sem gerðar hafa verið á meðal stjórnenda helstu fyrirtækja. Þannig hafi komið fram í viðhorfskönnun sem gerð var af Capacent fyrir áramót að 70% forsvarsmanna fyrirtækja teldu að aðstæður í efnahagslífinu séu slæmar. Í könnun Maskínu nú í febrúar var niðurstaðan svipuð, auk þess sem meirihluti stjórnenda fyrirtækjanna sagði að helsta fyrirstaðan í vexti atvinnulífsins væri ríkisstjórnin og skattastefna hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu í umræðunni í gær að vöxtur í reykvísku atvinnulífi verði ekki nema áherslur og aðgerðir ríkisvaldsins gagnvart því breytist. Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokksins í Reykjavík sagði það skyldu borgarstjórnar að mótmæla þessari stefnu ríkisstjórnarinnar og leggja þannig sitt af mörkum til að ríkisvaldið skilji betur samhengi öflugs atvinnulífs og farsæls mannlífs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bentu á mikilvægi þess að borgaryfirvöld standi með fyrirtækjunum í að krefja ríkisstjórnina um að lækka álögur og auka þannig svigrúm atvinnulífsins til fjárfestinga og atvinnusköpunar.
Þess vegna lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að borgarstjórn samþykkti áskorun til ríkisvaldsins. Sú áskorun var hins vegar ekki samþykkt af meirihlutanum sem vísaði henni til meðferðar á vettvangi borgarráðs. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu þá málsmeðferð, sögðu máli brýnt og ljóst væri að Samfylkingin í borgarstjórn væri með slíkri afgreiðslu að taka eigin flokkspólitísku hagsmuni fram fyrir hagsmuni atvinnulífsins í borginni.