Fækkun ráðuneyta samþykkt í ríkisstjórn

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Jim Smart

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu ráðherranefndar um stjórnkerfisumbætur varðandi breytingar á heitum og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Tillagan er nú til umfjöllunar í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna.

Í samræmi við nýsamþykkt lög um Stjórnarráð Íslands verður lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi sem að þessu lýtur. Þar er lagt til í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis,  efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Breytingin taki gildi 1. september

Með þessari breytingu fækkar ráðuneytum út tíu í átta og er þar með stigið lokaskrefið í sameiningarferli ráðuneytanna í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, segir á vef ríkisstjórnarinnar.

Í upphafi kjörtímabilsins voru ráðuneytin 12 talsins. Stefnt er að því að ljúka umfangsmikilli sameiningu og verkefnatilfærslum milli ráðuneyta á næstu mánuðum þannig að breytingarnar taki gildi 1. september nk.  

Fjármálamarkaður heyri undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti

Auk verkefna sem áður heyrðu undir sjávarútvegs- landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytið er gert ráð fyrir að til nýs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis færist verkefni sem tengjast fjármálamarkaði, almennum leikreglum atvinnulífsins og viðskiptamálum sem nú heyra undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

„Í ljósi greiningarvinnu sem fram hefur farið þykir skynsamlegt og faglega rétt  að verkefni sem tengjast hagstjórn séu færð frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til fjármálaráðuneytis og heiti þess breytt í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Með þessari breytingu verða því öll meginverkefni á sviði hagstjórnar, ríkisfjármála, peningastefnu- og gjaldeyrismála á einum stað innan Stjórnarráðs Íslands. Sambærilegt fyrirkomulag er m.a. í Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Írlandi og á Bretlandi.

Loks er með stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis á grunni umhverfisráðuneytis er lögð áhersla á aukið hlutverk þess varðandi sjálfbæra nýtingu auðlinda í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun hlutast til um mótun og lögfestingu meginreglna umhverfisréttarins og skilgreiningu þeirra viðmiða sem gilda eiga um sjálfbæra nýtingu,“ segir á vef ríkisstjórnarinnar.

Staða efnahagsmála styrkt enn frekar

„Með þessum breytingum verður stigið stórt skref og jafnræði aukið í þjónustu Stjórnarráðsins við allar atvinnugreinar, einnig verslun og þjónustu, svo sem ferðaþjónustu, og hugverkagreinar,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á vef ráðuneytisins.

„Þá verður staða efnahagsmála innan Stjórnarráðsins styrkt enn frekar og til verða þrjú öflug ráðuneyti sem endurspegla breytingar sem orðið hafa og munu verða á samfélagi okkar og alþjóðaumhverfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert