Fjárhættuspil á netinu soga til sín milljarða í dýrmætum gjaldeyri og er um að ræða ágengasta spilaformið í seinni tíð. Þetta sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í ávarpi á hádegisfundi um spilafíkn. Hann boðaði frumvarp í málaflokknum með haustinu.
Ögmundur sagði fundinn í dag byrjun á miklu lengri umræðu sem kallað verður eftir síðar á árinu. Hann sagði mikilvægt að allir sem tengjast málinu, þeir sem sýsla með happdrættismál og þeir sem hafa orðið spilafíkn að bráð, leggi sitt af mörkum. „Því að þegar upp er staðið eigum við öll sama markmiðið, að standa þannig að, að það sé til velfarnaðar í okkar samfélagi.“
Þó sagðist Ögmundur ekki telja nauðsynlegt né rétt að banna alla starfsemi sem flokka megi undir spilastarfsemi. Þannig líti hann á hefðbundin happdrætti, s.s. happdrætti DAS, SÍBS og Háskóla Íslands sem virðingaverðar leiðir sem farnar hafa verið um áratugaskeið til að styrkja hina ýmsu málaflokka.
„Einmitt vegna þessa hef ég oft orðið þess var þegar þessi mál eru rædd að margir fyrtast við og leggja umræðu, sem gengur út á að takmarka fjárhættuspil, að jöfnu við aðför að þessum stofnunum og þjóðþrifastarfi á þeirra vegum. Auðvitað er verkefnið að finna þessum aðilum fjármögnun sem dugir ef – eða öllu heldur þegar – dregið verður úr fjárstreymi til þeirra úr spilakössum, sem er í verulegum mæli komið frá fólki sem ánetjast hefur spilafíkn og er því ekki sjálfrátt gerða sinna,“ sagði Ögmundur.