Tölvuleikjaframleiðandinn CCP mun á morgun kynna nýjustu afurð sína; skotleikinn Dust 514. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir vinnu hafa byrjað fyrir fjórum árum en leikurinn þykir byltingarkenndur. Markaðsstjóri fyrirtækisins segir mögulegt að leikurinn verði sá mest spilaði í heimi.
Ýmislegt er nýtt við leikinn sem er fyrstu persónu skotleikur. Fyrir það fyrsta er hægt að nálgast hann endurgjaldslaust fyrir Playstation 3 tölvur frá Sony risanum en það er í fyrsta skipti sem það hefur verið gert á leikjatölvum. Leikurinn vinnur jafnframt með EVE online leiknum, sem hátt í 400 þúsund manns leika nú að staðaldri, þar sem leikendur í Dust 514 geta haft áhrif á atburðarásina í Eve leiknum og öfugt. Þetta hefur kallað á umfangsmiklar aðgerðir af hálfu CCP þar sem um 60 milljón Playstation tölvur eru í notkun og því gætu notendur orðið margar milljónir í lok árs. Tölvubúnaður fyrirtækisins hefur því þurft að vera hannaður til að geta tekið við auknu álagi og hærra flækjustigi.
David Reid, nýráðinn yfirmaður markaðsmála hjá CCP, segir leikinn án nokkurs vafa vera eitt af því mest spennandi sem er að gerast í leikjaiðnaðinum í dag. Það endurspeglist í þeirri trú sem Sony hefur á leiknum en fjöldi fólks hefur ferðast hingað til lands á vegum fyrirtækisins í tengslum við útgáfu leiksins. En Reid, sem áður stýrði m.a. markaðsmálum hjá Microsoft vegna Xbox tölvunnar, segir að leikirnir í sameiningu gætu mögulega verið orðnir þeir mest spiluðu í heimi í lok árs.
Hér má sjá kynningu á leiknum.