Samkvæmt áætlun mun rannsóknum Fjármálaeftirlitsins á atburðum tengdum bankahruninu ljúka fyrir árslok 2012. Opnuð hafa verið 191 mál og rannsóknum 149 mála er lokið. Af þeim voru 53 mál kærð til efnahagsbrotadeildar eða saksóknara og 33 málum var vísað til embættis sérstaks saksóknara. Þetta kemur fram í Fjármálum, vefriti Fjármálaeftirlitsins.
Þar segir að rannsóknarhópar Fjármálaeftirlitsins hafi átt gott samstarf við embætti sérstaks saksóknara. Þá hafi margar rannsóknir verið það víðtækar að eftirlitið hafi þurft að óska eftir gögnum erlendis frá og jafnframt hafi vaknað spurningar um lögsögu meintra brota sem framin hafa verið hérlendis með hlutabréf í erlendum kauphöllum. Fjármálaeftirlitið sótti um aðild að Alþjóðasamtökum verðbréfaeftirlita (IOSCO) til að auka aðgang sinn að frekari upplýsingum í kjölfar hrunsins.
Samkvæmt áætlun mun rannsóknum á atburðum tengdum bankahruninu ljúka fyrir árslok 2012. Fjármálaeftirlitið telur að þær áætlanir muni standast nema að eitthvað óvænt komi upp á. „Frá upphafi hafa verið opnuð 191 mál og þegar hefur verið lokið rannsóknum 149 mála hjá Fjármálaeftirlitinu. 53 mál hafa verið kærð til efnahagsbrotadeildar eða saksóknara, 33 málum verið vísað til embættis sérstaks saksóknara, 60 málum lokið án frekari aðgerða og 3 málum lokið með stjórnvaldssekt.“