Orð og efndir fylgdust ekki að

Gísli Páll Pálsson.
Gísli Páll Pálsson. mbl.is

„Það á ekki að bjóða upp á það í nútímasamfélagi að stjórnendur hjúkrunarheimila þurfi að keyra heimilismenn sína í gjaldþrot vegna innheimtu þjónustugjalda sem Tryggingastofnun ríkisins ákveður í samræmi við lög frá Alþingi Íslands,“ sagði Gísli Páll Pálsson, formaður Fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, í setningarræðu á ráðstefnu um búsetu aldraðra sem hófst í dag á Grand hóteli.

Hann sagði að í dag tækju heimilismenn hjúkrunarheimila þátt í greiðslu hluta dvalarkostnaðar samkvæmt 22. grein laga númer 125 frá 1999 um málefni aldraðra.  „Þeir geta þurft að greiða allt að 311 þúsund krónur á mánuði án þess að hafa nokkuð um það að segja hvaða þjónustu viðkomandi fær eða í hvaða herbergi hann býr.“  Aðstæður tveggja einstaklinga sem þurfi að greiða þessa fjárhæð gætu verið mjög mismunandi. Annar gæti búið í tvíbýli án baðherbergis en hinn í einbýli með baðherbergi. Engu að síður væri þeim gert skylt að greiða sömu fjárhæð. Það væri síðan stjórnenda hjúkrunarheimilanna að innheimta greiðslurnar hjá heimilismanninum og tækist það ekki þyrfti hjúkrunarheimilið að bera tjónið og fengi greiðslurnar ekki bættar. 

„Það er auðvitað óþolandi ástand að okkur sé falið að innheimta þessar greiðslur hjá þeim sem búa hjá okkur og ef viðkomandi neitar að greiða þá gæti það endað með beiðni um að viðkomandi verði gerður gjaldþrota.“ 

Gísli Páll sagði í þessu samhengi áhugavert að skoða það sem gerðist við breytta verkaskiptingu milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis sem átti sér stað 1. janúar 2008 og leiddi síðar til sameiningar ráðuneytanna í eitt velferðarráðuneyti. Á haustþingi 2007 hafi verið lagt fram frumvarp til breytinga á allmörgum lögum vegna þessara breyttu verkaskiptingar og við umræður um það frumvarp hafi  Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, sagt að hún myndi láta skoða hvort ekki væri rétt að endurmeta greiðslufyrirkomulag þeirra sem dveljist á hvers kyns þjónustustofnunum aldraðra þannig að horfið yrði frá fyrirkomulagi svokallaðra vasapeninga yfir í eðlilegt greiðslufyrirkomulag.  „Mér hafa borist fréttir af því að þar sé víða pottur brotinn og þetta vil ég skoða sérstaklega.  Við hljótum að geta endurmetið á hverjum tíma hvort endilega eigi að halda í úrelt fyrirkomulag sem fólkið sjálft er ósátt við.  Ég á einkum við að gerðar verði ráðstafanir þannig að lífeyrisþegar sem kjósa að búa á stofnun haldi í meira mæli fjárhagslegu sjálfstæði sínu,“hafði Gísli Páll eftir Jóhönnu.

Hann bætti síðan við: „Þess ber að geta að þrátt fyrir fögur fyrirheit haustið 2007 af þáverandi velferðarráðherra þá hefur engin breyting orðið á þessu fyrirkomulagi.  Það er auðvitað stórmerkilegt þegar maður horfir til þess að þessi sami einstaklingur hefur gegnt embætti forsætisráðherra sl. þrjú ár.  Það er ekki eins og að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki haft aðstöðu til þess að breyta þessu.  Mér sýnist á þessu að orð og efndir hafi ekki fylgst að.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert