Rætt við kortafyrirtækin um samstarf

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Ómar Óskarsson

Eitt af því sem fram kom á hádegisfundi um spilavanda í samfélaginu er að kortafyrirtækin geti stöðvað greiðslur til fyrirtækja sem gefi kost á fjárhættuspili á netinu. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að þegar hafi verið rætt við kortafyrirtækin um aðkomu þeirra.

En kemur til álita að stöðva greiðslur með þessum hætti? „Já, það kemur mjög til álita og við höfum verið í könnunarviðræðum um þessi efni, þ.e. happdrættisnefnd ráðuneytisins hefur verið að gera það. Síðan höfum við fengið sérstakan ráðgjafa til að kortleggja þessi mál og hjálpa við stefnumótunarvinnuna,“ segir Ögmundur.

Þá sagðist ráðherrann á fundinum hafa boðað stefnumótun. „Við höfum unnið að því undanfarnar vikur og kannski mánuði að vinna að stefnumótun sem verður til með haustinu en á grundvelli hennar mun líta dagsins ljós nýtt regluverk. Og hugsanlega ný löggjöf sem tekur til spilastarfsemi.“

Í ávarpi sínu sagði Ögmundur að milljarðar rynnu út úr landinu í gjaldeyri vegna fjárhættu spila á netinu. En á hverju byggir hann það? „Það byggi ég á líkindareikningi og þeim upplýsingum sem ég hef. Ágengasti aðilinn á spilamarkaðnum er spilavíti á netinu og gegnum það renna gríðarlega háar upphæðir úr landi, í gjaldeyri. Það er áhyggjuefni en hitt er miklu meira áhyggjuefni, hvernig þessi spilastarfsemi er að leggja líf margra einstaklinga og fjölskyldna í rúst og við það verður að sjálfsögðu ekki unað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert