Fyrir nokkrum árum voru reistar svalir í lokuðu porti veitingahússins Priksins Bankastræti 12 ásamt sorpgerði og geymslu án heimildar byggingarfulltrúa. Notkun svala þessara að nóttu hefur falist í að rekstraraðili veitingahússins heimilar neyslu áfengra drykkja auk reykinga. Slík notkun er skýlaust brot á lögum, reglugerðum og samþykktum um áfengisveitingar, segir í samþykkt fundar Íbúasamtaka miðborgar.
Þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir íbúa í nágrenninu vegna hávaða frá svölum þessum að nóttu til eftir að þær voru byggðar, gerist það á fundi byggingarfulltrúa þann 6.12. 2011 að veitt er leyfi fyrir áður gerðum framkvæmdum, segir í samþykkt Íbúasamtakanna.
„Má vera að byggingarfulltrúi telji sér ekki skylt lögum samkvæmt að kynna sé grenndaráhrif bygginga er lúta að hávaða og truflun í nærumhverfinu. Íbúar borgarinnar þurfa að geta treyst því að ætíð sé hugað að grenndaráhrifum við útgáfu leyfa eins og þess sem hér um ræðir.
Stjórn Íbúasamtaka Miðborgarinnar gerir ennfremur athugasemd við að ekki var leitað lögboðins álits húsafriðunarnefndar skv. 6. grein laga um húsafriðun nr. 104/2001 áður en umrætt leyfi var veitt, segir í samþykkt Íbúasamtaka miðborgar en þar er Magnús Skúlason formaður.