„Vaðlaheiðargöng er verkefni sem getur að öllum líkindum borið sig sjálft og því eru þau sá vænlegi kostur sem við lítum til núna,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, í utandagskrárumræðu á Alþingi í gær.
Oddný sagði að gert væri ráð fyrir að þau stæðu undir sér með veggjöldum. Oddný sagði göngin enn mikilvægari nú en áður vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Bakka. Hún sagði frumvarpið um Vaðlaheiðargöng tilbúið í ráðuneytinu, en að það væri nú til umsagnar hjá ríkisábyrgðarsjóði og að vænta mætti viðbragða þaðan á næstu dögum.
Oddný sagði að göngin væru eina stóra samgönguverkefnið sem hægt væri að ráðast í á árinu.