Vaxtahækkun „ávísun á frekari samdrátt“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mér finnst nú einhvern veginn að aðstæður hérna séu farnar að minna á margt sem gerðist fyrir hrun,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is aðspurður um ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í morgun að hækka vexti um 0,25% en stýrivextir bankans eru eftir hækkunina 5%. Hann segir að einhvern veginn virðist sem það sé sama hvaða vandamál sé til staðar í hagkerfinu. Lausn nefndarinnar sé alltaf að hækka vexti.

„Þetta er partur af þessu öngstræti sem efnahagsmálin okkar eru í,“ segir Gylfi. Stefnan nú sé að ná tökum á verðbólgu og gengi með vaxtahækkunum sem sé það sama sem gert hafi verið árin fyrir bankahrunið haustið 2008. Vaxtamunurinn sé nú mikill á milli Íslands og Evrópu og markmiðið sé með þessum aðgerðum að róa erlenda eigendur krónueigna sem komast ekki með þær úr landi vegna gjaldeyrishaftanna.

„Við erum að reyna að blása lífi í einhverjar vonarglæður um einhverja endurreisn í atvinnulífinu. En störfum hefur ekkert fjölgað, það hafa auðvitað fullt af nýjum störfum orðið til en um leið hafa því miður jafnmörg horfið jafnóðum. Þannig að störfum hefur ekkert fjölgað hérna í þrjú ár. Ég sé því ekki að þessi ákvörðun hjálpi okkur neitt í að koma hlutunum í gang hérna,“ segir Gylfi.

Hann segir að markmið vaxtahækkunarinnar nú sé að koma í veg fyrir uppbyggingu. „Það er eðli vaxtahækkana. Það gerir það dýrara fyrir okkur að fjárfesta eða neyta. Það er markmiðið. Yfirlýst stefna Seðlabankans sé að með því að hækka vexti og auka vaxtamun á milli landa þá verði þetta fé sem útlendingar eiga hérna þolinmóðara. Þannig var þetta gert þegar reynt var að halda uppi óraunhæfu gengi með vaxtahækkunum fyrir hrun,“ segir Gylfi.

Nú sé gengið hins vegar óeðlilega lágt en sé samt að síga þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. „Ofan á gjaldeyrishöftin koma svo vaxtahækkanir sem enginn getur borgað. Mér finnst þetta bara vera vanmáttugar og veikar tilraunir til þess að reyna að blása lífi í gjaldmiðil sem enginn þorir að viðurkenna að sé bara ónýtur. Og við munum bara halda þessu áfram. Mér finnst þetta bara dapurlegt. Þetta er ekkert annað ávísun á frekari samdrátt,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert