Verulegur spilavandi hjá 4-7 þúsund manns

Spilakassar.
Spilakassar. mbl.is/Sverrir

Gera má ráð fyrir að 4–7 þúsund Íslendingar á aldrinum 18–70 ára eigi í verulegum spilavanda, og sýnir samanburður á niðurstöðum fyrir árin 2005, 2007 og 2011 að fleiri áttu við spilavanda að etja árið 2011 en árin 2005 og 2007. Þetta kom fram á hádegisfundi um spilafíkn.

Á fundinum kynnti Daníel Þór Ólason, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands, niðurstöður rannsóknar um spilahegðun Íslendinga. Í máli hans kom fram, að rúmlega 76% landsmanna spiluðu að minnsta kosti einu sinni í peningaspilum á undanförnum 12 mánuðum fyrir könnun. Það er töluverð aukning frá 2007, en þá spiluðu 67% peningaspil.


Þegar þátttaka í mismunandi peningaspilum er borin saman við niðurstöður könnunar frá árinu 2007 kemur í ljós að þátttaka jókst mest í Lottói og póker en einnig tóku fleiri þátt í bingói. Aðeins færri spiluðu í spilakössum árið 2011 en 2007.

Þrátt fyrir að svo margir taki þátt í peningaspilum benda niðurstöður viðhorfsmælingar til þess að Íslendingar séu almennt fremur neikvæðir í garð peningaspila. Viðhorf voru þó breytileg eftir þjóðfélagshópum og þátttöku í peningaspilum.

3,3% spilað á erlendum vefsíðum

Um 19% landsmanna höfðu lagt fé undir í peningaspilum á Netinu, flestir á íslenskum vefsíðum þar sem hægt er að spila Lottó, kaupa miða í flokkahappdrættum eða giska á úrslit í fótbolta eða öðrum íþróttum. Um 3,3% landsmanna höfðu spilað á erlendum vefsíðum og er það um áttföld aukning ef miðað er við árið 2005. Netpóker er vinsælasta peningaspilið sem spilað er á útlendum síðum.

Þá er athyglisvert, að þegar könnuð voru tengsl fólks á eigin greiðslugetu undanfarna 12 mánuði og þátttöku í peningaspilum kom í ljós að þeir sem eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman fjárhagslega voru líklegri til að hafa keypt lottómiða en þeir sem stóðu vel fjárhagslega. Hins vegar reyndust tengslin með öðrum hætti þegar póker var annars vegar. Þeir sem voru ekki í fjárhagsvandræðum voru líklegri til að hafa spilað póker en þeir sem áttu erfitt með að láta enda ná saman.

Spilafíkn er í skýrslunni lýst sem spilahegðun sem hefur í för með sér óæskilegar afleiðingar fyrir þann sem spilar, fólk í nánasta umhverfi hans og fyrir samfélagið. Andleg vanlíðan, þunglyndi, kvíði eða streita eru algengir fylgifiskar spilafíknar og spilafíklar misnota oft áfengi eða önnur vímuefni. Þá er spilafíkill iðulega upptekinn af þrálátum þönkum um peningaspil og hugsar um leiðir til þess að spila áfram, gjarnan í þeim tilgangi að endurheimta glatað fé.

Könnunin var gerð í síma og byggðist á tilviljanaúrtaki 3.227 einstaklinga, á aldrinum 18-70 ára, úr þjóðskrá. Svör fengust frá 1.887 þátttakendum, 888 körlum og 999 konum. Nettósvarhlutfall var 61,8%. Meðalaldur svarenda var 42 ár.

Pókerspil.
Pókerspil. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert