Vinnumarkaðurinn er tekinn að glæðast eftir erfið misseri í kjölfar efnahagshrunsins. Þetta er skoðun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem sendi frá sér tilkynningu í tilefni þess að gögn Hagstofu Íslands sýna að 1.100 færri séu nú án atvinnu en í febrúar 2011.
„Fjöldi fyrirtækja skar niður yfirvinnu og lækkaði starfshlutfall til þess að halda sjó eftir hrunið án þess að segja upp fólki. Nú sjást merki um að þau séu að ná vopnum sínum. Fyrirtækin byrja á því að nýta betur fastráðið fólk og bæta svo vonandi við mannaflann eftir því sem hagvöxturinn glæðist.“
Spurður um þessi ummæli svarar Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, því til að störfum sé líka að fækka. „Það er augljóst að það eru að verða til ný störf. Því miður er það líka þannig að störf leggjast af. Sá hagvöxtur sem mælist er m.a. drifinn af einkaneyslu og skýrist öðru fremur af innlausn séreignasparnaðar og minni sparnaði. Mælingar Hagstofunnar sýna því miður að á móti þessu jákvæða sem er að gerast í atvinnulífinu, t.d. sjávarútvegi og ferðaþjónustu, heldur ýmislegt annað áfram að koðna niður.“