Fyrir nokkrum árum var Ísland sett í samhengi við glundroða og hrun í efnahagsmálum. Nú er hins vegar rætt um landið sem fyrirmynd annarra ríkja um hvernig reisa megi við hagkerfið eftir fjármálafárviðrið haustið 2008. Þetta er skoðun rúmensks blaðamanns sem fjallar um land og þjóð.
Fyrirsögn greinarinnar, „Íslenska efnahagsundrið“, gefur tóninn fyrir efnistökin en hún er birt á á rúmensku á vefnum Adevarul International, fréttavef dagblaðsins Adevarul.
En Adevărul þýðir sannleikur á rúmensku.
Meðal viðmælenda er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem segir að Íslendingar hafi áttað sig á að ekki væri nóg að bregðast við efnahagshruninu með því að horfa eingöngu til hins efnahagslega áfalls og fjárhagslegra orsaka þess. Huga þyrfti að hinum stjórnmálalegu og félagslegu þáttum við uppgjör á hinum miklu umskiptum sem urðu í efnahagslífi þjóðarinnar haustið 2008.
Lærdómur íslensku leiðarinnar
Greinarhöfundur, Andreea Romanovschi, segir þann lærdóm mega draga af viðbrögðum Íslendinga við bankahruni að þegar bankar hrynji skuli bjarga innistæðueigendum en ekki lánveitendum bankanna, þ.e. bönkum sem dældu fé í íslenska bankakerfið.
Greinarhöfundur tekur fram að leið Íslendinga út úr kreppunni hafi verið þyrnum stráð. Gengið hafi hrunið og innfluttar vörur hækkað í verði. Erlend lán hafi rokið upp í takt við gengishrunið.