Þegar aldir harðæris gengu í garð á síð-miðöldum á Íslandi varð það eyþjóðinni til bjargar að halda fast í gamlar hefðir. Þetta er niðurstaða rannsóknar á íslenskri menningu sem birt er í fræðiritinu útbreidda, Proceedings of the National Academy of Sciences.
Sagt er frá rannsókninni á eðlisfræðivefnum Physorg.
Rannsökuðu jarðlögin
Kemur þar fram að vísindamennirnir hafi rannsakað hvernig Íslendingar brugðust við mikilli fækkun íbúanna vegna kuldatíðar og eldgosa. Var það gert með því að greina lög af jarðvegi og ösku og leita í þeim að vísbendingum um lífsskilyrðin og lifnaðarhættina.
„Íslenskt samfélag var á þessum tíma bæði íhaldssamt og mjög þrautseigt. Við heyrum iðulega af því hvernig samfélög þurfa að vera sveigjanleg. Í þessu tilviki virðist hins vegar sem andstaða við breytingar hafi hjálpað þessu fólki að ná sér furðufljótt eftir plágur og aðlaga sig að breytingum á loftslaginu,“ segir dr. Richard Streeter, forvígismaður rannsóknarinnar, í samtali við áðurnefndan vef.
Sama greining og í Collapse
Megin niðurstaða rannsóknarinnar, að Íslendingar hafi verið íhaldssamir andspænis erfiðleikum, er ekki byggð á nýrri hugmynd.
Þannig má nefna að bandaríski metsöluhöfundurinn Jared Diamond, höfundur bókarinnar Collapse, yfirgripsmikils fræðirits um ris og hnignun samfélaga, tiltók sérstaklega í bókinni að Íslendingar væru íhaldssamir í frásögn sinni af landi og þjóð.
En Ísland er tekið fyrir í bókinni Collapse sem dæmi um hvernig gróðurþekja var lögð í rúst, m.a. vegna ofbeitar.
Margt varð til að fækka íbúum eyjunnar bláu og ber þar ef til vill hæst móðuharðindin en fram kemur á Wikipediu að talið sé að fimmtungur þjóðarinnar hafi farist og 75% búfjár drepist á hinum örlagaríku árum 1783-85.
En móða eða eiturgufa lagðist á jörðina og gras sviðnaði þegar Skaftáreldar ógnuðu mönnum og dýrum.