Veltan af gerð kvikmynda, myndbanda og sjónvarpsefnis var átta milljarðar króna í fyrra, 3,3 milljörðum króna meiri en árið 2010. Þetta má lesa úr bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands en þær undirstrika öran vöxt greinarinnar, ekki síst vegna eftirspurnar að utan.
Í umfjöllun um umsvif kvikmyndagerðarinnar í Morgunblaðinu í dag segir Einar Sveinn Þórðarson, meðeigandi í kvikmyndagerðarfyrirtækinu Pegasus, hagstætt gengi íslensku krónunnar hafa sitt að segja.
Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri Truenorth, staðfestir að fyrirtækið undirbúi samvinnu við bandarísk kvikmyndaver vegna tveggja til þriggja Hollywood-mynda í sumar. Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá Saga Film, segir að fyrirtækið muni að öllum líkindum taka þátt í upptökum á norskri kvikmynd í fullri lengd hér á landi í sumar.