Samkeppni um hálendið sem auðlind

Frá Hrafntinnuskeri.
Frá Hrafntinnuskeri. mbl.is/Rax

Rúmlega helmingur erlendra ferðamanna kemur til landsins á sumrin og flestir heimsækja sömu staðina, t.d. Þingvelli, Gullfoss, Geysi og Mývatnssveit, sagði dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir í erindi í faghóp  á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í dag um þolmörk ferðamennsku.

Þessi ójafna dreifing veldur miklu álagi á umhverfi og samfélag auk þess sem upplifun ferðamanna skerðist ef ferðamenn eru of margir. Þannig telja samkvæmt nýlegum könnunum 40% ferðamanna við Hrafntinnusker að óþægilega mikið að ferðafólki sé á svæðinu og um 30% í Landmannalaugum.

Hugtakið þolmörk ferðamennsku tekur á þessu með því að varpa ljósi á hvað sé æskilegur fjöldi ferðamanna á hverjum áfangastað.  Um 70% allra gistinátta á hálendinu eru á Suðurhálendinu. Ljóst sé þegar af rannsóknum að ákveðnir staðir á Suðurhálendinu eru orðnir mjög ásettir vegna fjölbreyttrar nýtingar, og framundan sé samkeppni um hálendið sem auðlind.

Í erindinu sem dr. Anna Dóra flytur eftir hádegið fjallar hún um hina ýmsu þætti þolmarka ferðamennsku og hvaða hættumerki eru uppi, auk þess sem bent var á hvernig byggja megi stefnumótun í rannsóknum á þolmörkum ferðamennsku.

Erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað að meðaltali um 7,4% síðustu 30 árin, frá um 72 þúsundum árið 1981 í um 566 þúsund árið 2011, auk þess sem Íslendingar ferðast nú meira um landið en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert