Skylt að fjarlægja grenitré

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Húseigendur í Kópavogi hafa verið dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness til að fjarlægja tvö grenitré úr garði sínum. Trén voru gróðursett árið 1961 en árið 1994 var reist fjórbýlishús á lóðinni við hlið þeirrar sem trén standa á. Nágranni í fjórbýlishúsinu fór í mál þar sem trén vörpuðu skugga á sólpall hans.

Í gögnum málsins kom fram að trén eru um 18 metrar á hæð og stendur efra tréð tvo metra frá lóðarmörkum en neðra tréð 2,30 metra frá lóðarmörkum. Á milli trjánna eru 2,90 metrar. Greinar efra trésins slúta frá lóðarmörkum 2,40 metra inn á lóð nágrannans en greinar neðra trésins teygja sig 1,90 metra inn á lóð hans.

Að sögn nágrannans byrjar sólin að skína á sólpall hans yfir sumartímann um kl. 12.30-13.00 en um það leyti komi hún fyrir suð-vesturhorn hússins og taki að skína á vesturhlið þess þar sem sólpallurinn er staðsettur. Að sögn nágrannans nýtur sólar á sólpallinum í um eina klukkustund eftir að hún kemur fyrir hornið en af framlögðum gögnum mátti ætla að sá tími sé um ein og hálf til tvær klukkustundir.

Í dóminum er vísað til byggingareglugerðar en í henni segir að sé trjám plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skuli hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 metrar nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað. Þá megi ekki planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 3,00 metra. Lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka.

Af hálfu eigenda trjánna var því haldið fram að þau ættu betri rétt í málinu vegna þess að trén voru fyrir þegar nágrannarnir keyptu íbúð sína árið 2005 og ákváðu að byggja sólpall. Dómurinn féllst ekki á það, heldur mat hvort óþægindi nágrannanna vegna trjánna séu veruleg.

Dagsektir verði trén ekki fjarlægð

„Sannað er í málinu að vegna hinna umþrættu tveggja grenitrjáa nýtur sólar ekki við vesturgafl húss stefnanda á sólskinsdögum nema í eina og hálfa til tvær klukkustundir eftir hádegi á sumrin í stað þess að skína frá því upp úr hádegi og fram á kvöld. Birtuskilyrði eru því verulega skert vegna trjánna tveggja. Vegna stærðar þeirra og mikils umfangs, en þau eru aðeins í 2,00 og 2,30 metra fjarlægð frá lóðarmörkum, skaga greinar trjánna langt inn á lóð stefnanda með þeim afleiðingum að könglar og greninálar falla í töluverðum mæli á lóð stefnanda og inn á sólpall hennar eins og dómarar sáu við vettvangsgöngu. Fallist verður á með stefnanda að hún hafi ríka hagsmuni af því að geta nýtt sér sólpallinn til útiveru,“ segir í dómnum.

Dómurinn taldi trén til verulegra óþæginda og langt umfram það sem nágrannar þurfi að þola samkvæmt ólögfestum reglum um nábýlisrétt.

Fallist var á kröfu nágrannanna um að trén verði fjarlægð, að viðlögðum dagsektum sem þóttu hæfilegar 20 þúsund krónur á dag. Sektirnar byrja að falla að 50 dögum liðnum og renna til nágrannanna.

Eigendur trjánna voru einnig dæmdir til að greiða nágranna sínum 950 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert