Sjálfstæðismenn segjast stundum vera helbláir því til undirstrikunar að þeir gangi sjálfstæðisstefnunni eindregið á hönd. Þessi aðgreining á stjórnmálastefnum eftir litum hefur fengið vísindalega greiningu því andhverfan, stuðningsmenn Vinstri grænna, eru ekki hrifnir af bláum lit.
Þetta kemur fram á vef Vinstri grænna en fréttin er byggð á nýlegri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir sviðslistahópinn 16 elskendur árið 2011 og hópurinn hefur nú unnið Sýningu ársins upp úr.
Samfylkingarmenn hrifnari af bláum
Orðrétt segir um könnunina á vef VG:
„Kjósendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eru þeir einu sem eiga annan uppáhaldslit en bláan ... Af þeim sem sögðust myndu kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð sögðu 27% að uppáhaldslitur þeirra væri rauður, en 24% nefndu grænan eða túrkís. Uppáhaldslitur kjósenda Sjálfstæðisflokksins var blár en 46% þeirra nefndu bláan. Athygli vekur að blár er einnig uppáhaldslitur kjósenda Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Hreyfingarinnar eða annarra og einnig þeirra sem segjast myndu skila auðu.
Könnunin fjallaði þó mest um leikhús og þar kom fram að kjósendur Vinstri-Grænna vilja frekar sjá leikrit á litlu sviði og eru líklegastir til að vilja upplifa samviskubit í leikhúsi á meðan kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru þeir sem helst vildu sjá létta og skemmtilega sýningu. Þá vekur athygli að framsóknarmenn eru áberandi hlynntastir því að leikarar séu fáklæddir eða naktir á sviði,“ segir á vef Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.