Það tilheyrir á flestum heimilum að fá páskaegg um páskana en það eru ekki allir sem hafa efni á að gefa börnum sínum egg. Fjölskylduhjálp Íslands hvetur fólk til að kaupa eitt aukapáskaegg svo gleðja megi börn sem minna mega sín um páskana.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, segir að ekki sé mögulegt að vera með veglega páskaúthlutun þetta árið en síðasta úthlutunin fyrir páska verður á miðvikudag, 28. mars.
„Við getum því miður ekki haft veglega páskaúthlutun, það vantar einfaldlega fjármagn,“ segir Ásgerður Jóna. Hún segir að um þúsund fjölskyldur leiti reglulega aðstoðar í Reykjavík og Reykjanesbæ. Hún segir gott kjöt t.d. það dýrt að líklega verði ekki hægt að bjóða upp á slíkt þetta árið. Reynt verður þó að gera það besta úr hlutunum og fiskur, gos og jafnvel kjötfars verði í boði fyrir fjölskyldurnar sem leita sér aðstoðar.
„En svo höfum við enga möguleika á að vera með páskaegg. Þess vegna biðlum við til almennings um að fólk kaupi eitt aukaegg, í hvaða stærð sem er, og komi með til okkar. Þá getum við glatt börn þeirra sem minna mega sín,“ segir Ásgerður Jóna.
Hún segir ástandið hjá mörgum mjög slæmt og það sé sín tilfinning að kjör fólks séu síst að batna. Þá sé nú erfiðara að fá gjafir frá fyrirtækjum en oft áður.
Fyrirkomulagi við úthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands verður breytt frá og með 1. apríl næstkomandi. Þaðan í frá þarf fólk sem sækir aðstoð að sýna skattaskýrslu og í kjölfarið verði svo metið hvort viðkomandi geti fengið úthlutað.
„Með þessu erum við að reyna að þrengja hópinn og koma aðstoðinni til þeirra sem mest þurfa á henni að halda,“ segir Ásgerður Jóna.
Hún segir að einnig sé í skoðun að koma betur til móts við eldri borgara því hún telji að margir þeirra treysti sér ekki til að leita sér aðstoðar hjá Fjölskylduhjálpinni. Því sé verið að skoða að úthluta til þeirra fyrr á daginn, milli kl. 12 og 14 úthlutunardaga.
Ásgerður Jóna segir skelfilegt að horfa upp á að fólk hafi t.d. ekki efni á að leysa út lyfin sín. Dæmi séu um að fólk hafi t.d. ekki leyst út hjartalyf í þrjár vikur. „Þetta fólk er auðvitað alveg miður sín þegar það leitar til okkar.“