Maður á miðjum aldri hafði í hótunum við starfsfólk Sýslumannsins í Keflavík í dag og hótaði m.a. að snúa aftur á skrifstofuna með skotvopn meðferðis. Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík, segir starfsfólkinu hafa verið brugðið.
„Þetta var maður sem skuldaði opinber gjöld sem eru reyndar ekki í innheimtu hjá mér heldur annars staðar. Þannig að hann átti ekki neitt sökótt við mig eða neinn annan persónulega. Málið snýst ekki um það,“ segir Þórólfur.
„Hótanirnar beindust að okkur. Hann hótaði að snúa aftur með skotvopn. Lögreglan kom á staðinn þegar maðurinn var nýfarinn. Það hafði enginn séð manninn áður. Það þekkti enginn deili á honum.
Við tökum svona hluti alvarlega. Það er ekki hægt að gera annað. Þetta var á annarri hæðinni hjá okkur og það urðu ekki mörg vitni að þessu. En fólki var auðvitað brugðið,“ segir Þórólfur.
Ekki fengust upplýsingar um málið hjá lögreglu.