Líkur fara nú vaxandi á að markmið, sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld settu sér um auknar fjárfestingar í tengslum við kjarasamninga, náist á næstu misserum. Fjárfestingar námu 14 prósentum af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2011 og horfur eru á að þær verði 16 prósent sem hlutfall af VHL á þessu ári. Markmiðið er að fjárfestingar nemi fimmtungi (20%) af VLF á næsta ári. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins.
Á vef Stjórnarráðsins eru tíunduð þau opinberu og hálfopinberu verkefni sem eru hafin eða eru í þann mund að hefjast:
• Aflþynnuverksmiðja í Eyjafirði: Samningurinn var gerður við Becromal og Strokk Energy árið 2010. Raforkuþörf nemur 75 MW í fyrstu. Heildarfjárfestingarkostnaður er áætlaður um 10 milljarðar króna. Um 80 manns starfa við verksmiðjuna og er framleiðsla þegar hafin. Stækkun er fyrirhuguð.
• Thorsil kísilmálmverksmiðja: Í lok árs 2010 var undirritaður fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf., Timminco Limited og Strokk Energy ehf. um kíslimálmverksmiðju. Til athugunar er nú að staðsetja hana á Bakka við Húsavík. Hún mun þarfnast 85 MW af raforku. Ætlað er að árleg velta fyrirtækisins verði um 17 milljarðar króna og að um 160 manns vinni við hana.
• Gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ: Í september sl. var undirritaður fjárfestingarsamningur við Verne Real Estate II ehf. vegna byggingar gagnavers á Ásbrú. Það var opnað í febrúar sl. Verið skapar a.m.k. 100 ný störf til frambúðar og fleiri á framkvæmdatíma. Heildar fjárfestingarkostnaður nemur 88 milljörðum króna miðað við fullbúið gagnaver árið 2017.
• Stækkun álvers í Straumsvík: Alcan/RioTinto er nú í miðjum framkvæmdum við stækkun og endurnýjun álversins í Straumsvík. Framkvæmdatími er frá 2010 til 2014 og heildarfjárfestingarkostnaður er áætlaður um 57 milljarðar króna.
• Kísilver í Helguvík: Í febrúar 2011 var undirritaður fjárfestingarsamningur við Íslenska kísilfélagið ehf. og var áætlað að hefja framkvæmdir á síðasta ári. Samningum um orkuafhendingu hefur verið rift vegna vanefnda en helsti fjárfestirinn, Globe Speciality Metals, hefur í hyggju að kaupa þrotabú kísilverksmiðju í Kanada og snúa sér frá Íslandi. Til athugunar er hvort aðrir framleiðendur geti gengið inn í verkefnið. Heildarfjárfesting var áætluð um 17 milljarðar króna. Raforkuþörf nemur til 65 MW.
• Kísilmálmverksmiðja PCC: Samningar (m.a. fjárfestingarsamningur) eru langt komnir við þýska fyrirtækið PCC um kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Raforkuþörf nemur liðlega 50 MW afli. Rekstur verksmiðju ætti að hefjast síðla árs 2015 ef allt fer sem horfir. Áætlað er að 120 manns vinni við framleiðsluna.
• Álver í Helguvík: Framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík hófust árið 2008 m.a. við uppsteypu kerskála. Fjárfestingar í verkefninu eru þegar mjög miklar. Framkvæmdir hafa legið niðri en samningaviðræður um orkuverð, orkuafhendingu o.fl. halda áfram. Verksmiðjan veitir um 600 manns vinnu og skapar alls um 2.000 störf beint og óbeint þegar verksmiðjan tekur til starfa.
Auk þess sem framan er greint er nú unnið úr um 10 til 15 umsóknum um fjárfestingaverkefni allt frá álkaplaverksmiðju og stálendurvinnslu til fiskeldis og hótelbygginga. Samtals er þar um 1.300 ársverk að tefla. Samanlagt nema fjárfestingarnar í öllum verkefnunum 180 til 200 milljörðum króna, segir í frétt ríkisstjórnarinnar.
Öflun raforku vegna fjárfestingarverkefna
Mörg þeirra verkefna sem hér eru talin eru háð umfangsmiklum kaupum viðkomandi fyrirtækja á raforku.
Þær virkjunarframkvæmdir sem þegar eru hafnar eru eftirfarandi:
• Búðarhálsvirkjun: Áætl. fjárfesting: 22,2 milljarðar króna. Framkvæmdatími: 2011-2013
• Hellisheiðarvirkjun: Fjárfesting: 6,9 milljarðar króna 2011 og 569 milljónir króna árið 2012. Framkvæmdum lýkur á þessu ári.
• Bjarnarflagsvirkjun: Áætl. fjárfesting: 20,6 milljarðar króna. Framkvæmdatími er 2011-2014.
• Þeistareykir: Áætl. fjárfesting: 20,2 milljarðar króna. Framkvæmdatími er 2011-2014.
• Veitukerfi (OR): 3,1 ma. kr. 2011, 4,1 ma. kr.. 2012, 3,2 ma. kr. 2013. Samtals 10,4 milljarðar króna.
• Framkvæmdir á vegum Landsnets: Framkvæmdatími 2011-2014. 1,4 ma. kr. 2011, 3,8 ma.kr. 2012, 7.9 ma.kr. 2013, 6,9 ma.kr. 2014. 20.000 m.kr. Samtals 20 milljarðar króna.
Undirbúningur virkjana á vegum Orkuveitu Reykjavíkur við Hverahlíð og á vegum HS Orku á Reykjanesi hefur staðið undanfarin misseri. Þegar hafa verið lagðir 5 til 6 milljarðar króna í undirbúning Hverahlíðarvirkjunar. Samanlagður kostnaður við þessa virkjunarkosti gæti verið á bilinu 60 til 80 milljarðar króna.
Vaxandi fjárfestingar eru nú í ferðaþjónustu og sjávarútvegi en umsvif og tekjur þessara mikilvægu atvinnugreina þjóðarinnar hafa vaxið verulega á undanförnum misserum. Í því sambandi má nefna að tekjur af loðnuvertíðinni, sem lýkur á næstu dögum, eru áætlaðar um 30 milljarðar króna.
Þá má nefna kvikmyndagerð sem velti 8 milljörðum króna í fyrra en það er liðlega 3 milljörðum krónum meira en árið 2010, segir í frétt ráðuneytisins.