Mest ánægja með Katrínu Jakobsdóttur

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mest ánægja ríkir með störf Katrínar Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, næstmest með störf Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallups.

Næst í röðinni er Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, en ánægja með störf þeirra allra eykst frá síðustu mælingu sem var gerð fyrir rúmu ári. Rúmlega 43% eru ánægð með störf Katrínar Jakobsdóttur, ríflega 33% með störf Guðbjarts og nær 30% með störf Katrínar Júlíusdóttur.

Minnst ánægja er með störf Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra en þar á eftir koma Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Oddný G. Harðardóttir sem er nýtekin við embætti fjármálaráðherra og er starfandi iðnaðarráðherra í fjarveru Katrínar Júlíusdóttur.

Rúmlega 16% eru ánægð með störf Svandísar, ríflega 18% með störf Jóhönnu og tæplega 20% með störf Össurar og Oddnýjar. Ánægja með störf Svandísar og Jóhönnu minnkar frá síðustu mælingu en ánægja með störf Össurar eykst.

Mikil tengsl eru á milli ánægju fólks með störf einstaka ráðherra og þess hvað það myndi kjósa ef kosið yrði til Alþingis nú og er þetta mest áberandi þegar spurt er um Jóhönnu, Steingrím og Svandísi.

Enginn þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn segist ánægður með störf Jóhönnu og aðeins tæplega 1% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, á meðan rúmlega tveir af hverjum þremur sem myndu kjósa Samfylkinguna eru ánægðir með störf hennar.

Tæplega 4% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn segjast ánægð með störf Steingríms á meðan ríflega 81% þeirra sem myndu kjósa VG er ánægt með störf hans. Tæplega 2% þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn og um 5% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru ánægð með störf Svandísar á móti nær 68% þeirra sem myndu kjósa VG.

Þeir sem myndu kjósa Samfylkinguna eða Vinstrihreyfinguna – grænt framboð eru líka ánægðari með störf annarra ráðherra en þeir sem myndu kjósa Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkinn, nema þegar spurt er um störf Ögmundar en þá eru þeir sem myndu kjósa Samfylkinguna ólíklegri til að vera ánægðir.

22% ánægð með störf stjórnarandstöðunnar

Tæplega 22% þeirra sem taka afstöðu eru ánægð með störf stjórnarandstöðunnar og er það hærra hlutfall en í síðustu mælingu en sama hlutfall og í mælingu sem var gerð fyrir tveimur árum. Naumlega 3% þeirra sem styðja ríkisstjórnina eru ánægð með störf stjórnarandstöðunnar og um 34% þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina. Alls eru 52% óánægð með stjórnarandstöðuna.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert