Nautakjöt flokkað í ætt og óætt?

AP

„Hann er misjafn metnaður manna á bæjunum. Ætli væri ekki einfaldast að hafa bara eins og tvo flokka við þetta mat; ætt og óætt,“ sagði Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, í setningarræðu sinni á aðalfundi landssambandsins sem hófst í dag, en hann fer að þessu sinni fram á Hótel Selfossi.

Vísaði Sigurður þar til vinnu við að koma á EUROP-kjötmati fyrir nautgripi hér á landi sem hann sagði að koma þyrfti á sem allra fyrst.

„Stjórn Landssambands kúabænda vann talsvert í því máli á síðasta ári. Meðal annars var leitað samstarfs við Landssamtök sláturleyfishafa um framgang málsins, þar á bæ fengum við hinsvegar þau svör að þeir hafi svo mikið vantraust á yfirkjötmatinu að þeir treysti sér ekki til að mæla með EUROP kjötmati í nautgripum,“ sagði Sigurður.

Í ræðu sinni fór Sigurður víða um völl um málefni kúabænda og ræddi meðal annars um afleiðingar eldgossins í Grímsvötnum á síðasta ári og hvernig bændur hefðu tekist á við þær. Sömuleiðis hvernig kjötframleiðsla og mjólkurframleiðsla hefði gengið á síðasta ári sem og hvernig tíðarfarið hefði verið og komið við bændur.

Síðast en ekki síst ræddi Sigurður um málefni skuldugra bænda: „Nokkuð hefur verið að skýrast í málefnum skuldugra bænda, einkum hvað varðar endurreikning erlendra lána þar sem mál virðast vera að þróast með jákvæðum hætti. Þó hefur enn verið sköpuð óvissa um stöðu þessara lána með hæstaréttardómi 600/2011 sem kveðinn var upp þann 15. febrúar síðastliðinn, sem mikilvægt er að verði eytt sem fyrst.“

Ræða formanns LK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert