Í gær var merkum áfanga náð hjá Flugfélagi Íslands þegar fyrsta flug félagsins á DASH 8-200 vél með einkennisstafina TF-JMK var farið. Vélin er fyrri af tveimur vélum sem félagið hefur keypt og mun seinni vélin koma í rekstur félagsins síðar í vor, segir í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands.
DASH 8-200 vélarnar eru af nýrri gerð en fyrirrennarar þess DASH 8-100 og eru töluverðar breytingar á milli þessara tveggja tegunda. Þannig eru nýju vélarnar með stærri eldsneytistönkum sem tvöfalda flugþol vélanna.
Fjárfestingin í vélunum er um einn og hálfur milljarður króna en á móti hafa DASH 8-100 vélarnar verið teknar úr rekstri.
Kaupin á DASH vélunum koma fyrst og fremst til vegna aukins flugs til Grænlands. Flugfélag Íslands hefur á undanförnum árum fjölgað áfangastöðum og aukið tíðni verulega til Grænlands. Flogið er nú til 5 áfangastaða á Grænlandi þar af til þriggja allt árið um kring. Bókanir fyrir sumarið líta vel út og hafa nú um 20% fleiri farþegar bókað flug til Grænlands miðað við sama tíma á fyrra ári.
Flugfloti Flugfélags Íslands mun, þegar seinni DASH vélin verður komin, samanstanda af 6 Fokker 50 vélum hver með 50 sætum fyrir farþega og 2 DASH 8-200 vélum hver með 37 sætum fyrir farþega. Heildarfarþegafjöldi Flugfélags Íslands á síðasta ári var 353.000 og jókst hann um 3% frá fyrra ári, segir í fréttatilkynningu Flugfélagsins.