Auðvitað er það eitt af meginatriðum sem menn eru að vinna út frá að opna fyrir meiri nýliðun inn í greinina en verið hefur, segir Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingar, um eitt markmiða nýja kvótafrumvarpsins sem nú kemur til kasta þingflokkanna. Hann boðar stækkun leigupotta.
Skúli segir slíka potta greiða fyrir nýliðun í sjávarútveginum.
„Tækið sem er notað í því skyni er leigupottur, þ.e. að það sé þá umtalsverður hluti af aflahlutdeildinni sem er boðinn upp á frjálsum markaði og stendur þá hverjum sem er til boða.
Með því að potturinn sé umtalsvert stærri en verið hefur þá telja menn að verðmyndunin verði í fyrsta lagi hóflegri og eðlilegri en menn hafa þurft að horfa fram á fram að þessu.
Ég myndi segja að þetta væri meginleiðin sem menn eiga að fara til þess að draga úr því að kvótinn safnist á fárra manna hendur,“ segir Skúli.