Í ljósi dýrkeyptrar reynslu hljóta íslensk stjórnvöld að skoða alvarlega að aðskilja starfsemi fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi til að lágmarka áhættu viðskiptabankamegin. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, þegar hann kynnti nýja skýrslu um framtíðarskipan fjármálakerfisins.
Skýrslan var lögð fram í ríkisstjórn í morgun og var dreift til alþingismanna í dag. Kynnti efnahags- og viðskiptaráðherra skýrsluna fyrir fjölmiðlum á blaðamannafundi í ráðuneytinu nú síðdegis.
Í framhaldinu mun sérfræðingahópur undirbúa tillögur um samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á íslenskum fjármálamarkaði. Stendur til að hann skili niðurstöðum sínum fyrir haustið.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að kanna þurfi vandlega hvort ekki megi koma í veg fyrir óheppilega blöndun verkefna viðskipta- og fjárfestingabanka með bættu innra skipulagi og eftirliti í bönkunum undir vökulu auga Fjármálaeftirlitsins.
Í sérfræðingahópnum eru Gavin Bingham, fyrrv. framkvæmdastjóri Central Bank Governance Forum hjá BIS í Basel, Jón Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Norræna fjárfestingarbankans (NIB) í Helsingfors, og Kaarlo Jännäri, fyrrv. forstjóri fjármálaeftirlits Finnlands.
Í verklýsingu sérfræðingahópsins kemur fram að honum er ætlað að rýna texta skýrslunnar um framtíðarskipan fjármálakerfisins og kynna sér skoðanir og athugasemdir sem fram kunna að koma við umræður um hana innan þings og utan. Á grundvelli skýrslunnar og annarra tiltækra gagna er sérfræðinganefndinni ætlað að:
1. Kanna hvernig lögum og reglum um fjármálastarfsemi og framkvæmd eftirlits á Íslandi hefur verið breytt í tilefni af fjármálahruninu 2008.
2. Greina veikleika sem enn kunna að vera til staðar í lögum og reglum um fjármálamarkaðinn og tengda markaði og í framkvæmd fjármálaeftirlits og eftirfylgni með því og gera tillögur til úrbóta.
3. Gera tillögur um það hvernig unnt er að skipta betur verkum með einstökum þátttakendum á fjármálamarkaði og styrkja stofnanaumgjörð fjármálaeftirlits, bæði hvað varðar eindaeftirlit og þjóðhagsvarúð, þ.e. heildareftirlit.
4. Gera tillögur um hvernig best fari á því að setja samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á fjármálamarkaði.
Hópnum er síðan ætlað að skila til efnahags- og viðskiptaráðherra tillögum um breytingar á lagaumgjörð fjármálamarkaðarins, sérstaklega hvað varðar ábyrgðarsvið Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Ráðherra hyggst síðan leggja fram frumvarp á haustþingi 2012 byggt á tillögum sérfræðingahópsins. Sérfræðingahópurinn mun verða ráðuneytinu til ráðgjafar við samningu frumvarpa um þetta efni.