Unnið hefur verið að því að undanförnu að setja á stofn litla bjórverksmiðju á Ísafirði sem framleiða mun bjór til sölu í veitingahúsum og krám á svæðinu sem og í áfengisverslun, eins og þekkist víða erlendis.
„Framtíðarsýnin er að brugga gæða vestfirskan bjór ætlaðan á heimamarkaðinn og fyrir þá fjölmörgu ferðamenn sem sækja til Vestfjarða í auknum mæli,“ segir Shiran Þórisson hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, í samtali við Bæjarins besta. Hópurinn leitar nú að áhugasömum fjárfestum til að taka þátt í verkefninu.
Nú þegar liggur fyrir að einn frumkvöðlanna í hópnum hefur fengið samþykkt kauptilboð í tækjabúnað sem var í bjórverksmiðju á Snæfellsnesi.
Í hópnum eru Gísli Halldór Halldórsson, Gústaf Gústafsson, Jón Páll Hreinsson, Kristinn Mar Einarsson, Steinþór Kristjánsson, Halldór Antonsson, Ársæll Níelsson, Halldór Eraclides, Örn Ingólfsson, Elías Guðmundsson, Guðmundur Óli Tryggvason og Hallvarður Aspelund.