Vilji til að sjá konu sem biskup

Agnes M. Sigurðardóttir
Agnes M. Sigurðardóttir

„Mér finnst þetta vera greinileg vísbending um það að fólk vill fá konu í þetta embætti,“ segir sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sem hlaut flest atkvæði í fyrri umferð kjörs til biskups Íslands. Af átta frambjóðendum voru tvær konur og lentu þær í 1. og 3. sæti.

Alls greiddi 131 atkvæði með Agnesi í biskupskjörinu. Næstflest atkvæði, eða 120, fékk sr. Sigurður Árni Þórðarson, en hinn kvenkyns frambjóðandinn, sr. Sigríður Guðmarsdóttir, varð þriðja með 76 atkvæði. 

Sr. Agnes hefur verið prestur í Bolungarvík í 17 ár en frá því hún tók vígslu árið 1981 hefur hún einnig þjónað í Reykjavík og á Hvanneyri í Borgarfirði. Hún segist afar glöð yfir niðurstöðu kosningarinnar.

Aðspurð hvað hún telji að hafi helst höfðað til fólks í sínum áherslum segir Agnes þó að erfitt sé að fullyrða um það. Á kynningarfundum sem haldnir voru í aðdraganda kosninganna hafi hún heyrt á fólki að því fyndist enginn afgerandi munur vera í afstöðu frambjóðendanna átta.

„Ég held hinsvegar að þessir fundir hafi verið góðir vegna þess að við sem vorum í framboði fórum á þá saman og þar skapaðist vettvangur fyrir jákvæðar umræður um kirkjuna, sem mér finnst hafa skort svolítið undanfarið. Ég legg mikla áherslu á samtal og að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar allra í kirkjunni, að biskup sé ekki einn heldur fólk í sameiningu.“

Áætlað er að kjörseðlar fyrir næstu umferð, þar sem kosið verður milli Agnesar og Sigurðar Árna, fari í póst 2. apríl næstkomandi. Agnes segist nú þurfa að taka púlsinn á stöðunni og hún eigi eftir að ákveða hvernig hún hagi málum en gerir ráð fyrir að hún muni halda áfram að ræða við fólk og senda frá sér greinar í þeirri kosningabaráttu sem framundan er. Áherslurnar séu óbreyttar.

„Mér finnst skipta miklu máli að fólk fái jákvæða afstöðu gagnvart kirkjunni og finni það að við þjónar hennar viljum af öllu hjarta vera góðir þjónar og koma boðskapnum áfram til fólksins. Kirkjunnar fólk á að vera góðar fyrirmyndir, og við megum ekki gleyma því þegar við tölum um kirkjuna að hún er til vegna trúarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert